Starfsmenn Umhverfisstofnunar tóku mynd af rusli og blautþurrkum í skólphreinsistöðinni í Klettagörðum á dögunum en á henni má sjá hvernig náðst hefur að sía ruslið frá. Við tilefnið vill Umhverfisstofnun minna á að allt rusl sem fer í holræsi og klósett á oft greiða leið út í sjó. „Við viljum hvetja fólk til að henda ekki öðru en pappír í klósettin,“ segir á vef stofnunarinnar.
Þá tekur Umhverfisstofnun það sérstaklega fram að myndin sé ekki af listaverki, þetta sé ruslið og blautþurrkurnar sem „við hendum í klósettin og á göturnar. Þar sem ekki er skólphreinsun fara þessi mengandi óboðnu gestir beint út í sjó!“
Blautklútarnir langstærsta vandamálið
Árlega fara um 70 til 80 milljón tonn af skólpi gegnum hreinsistöðvar Veitna. Þar af eru um 200 tonn af fitu sem hellt er í niðurföll en áætlað er að um 65 tonn af blautþurrkum sé hent í klósett á ári, samkvæmt frétt RÚV frá því í janúar síðastliðnum.
Langstærsta vandamálið eru blautklútarnir, sem allt of margir henda í klósettið. Það gerist ítrekað að blautklútar stífla skólphreinsidælur á höfuðborgarsvæðinu.
Íris Þórarinsdóttir, tæknistjóri fráveitu hjá Veitum, sagði í samtali við RÚV að flestir þessir klútar væru úr fínum plasttrefjum og leystust því alls ekki upp eins og klósettpappír gerir í fráveitukerfinu.
Blautklútarnir vefjast utan um dælurnar og blandast við fitu og annan úrgang. „Og myndar köggla, og það er þetta sambland af blautklútum og öðru rusli, og fitu, sem líka kemur mikið í fráveitukerfið en ætti ekki að gera það, sem er að mynda þessa fituhlunka,“ sagði Íris.