Fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt til breytingar á skattalögum vegna vistvænna ökutækja. Ráðherra leggur meðal annars til að byggjendur og eigendur íbúðarhúsnæðis fái endurgreiddan virðisaukaskatt vegna kaupa á hleðslustöðvum í eða við íbúðarhúsnæði. Auk þess er lagt til að fella niður virðisaukaskatt vegna innflutnings á bifhjólum og reiðhjólum sem knúin eru af rafmagni.
Á að greiða hraðar fyrir orkuskiptum
Drög að frumvarpinu hafa nú verið birt á samráðsgátt stjórnvalda. Samkvæmt drögunum er markmið frumvarpsins að greiða fyrir orkuskiptum í samgöngum í samræmi við stefnu stjórnvalda í þeim efnum.
Helstu breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru meðal annars að lagt er til að heimild til virðisaukaskattsívilnana fyrir rafmagns- og vetnisbifreiðar verði framlengd til og með 31. desember 2023. Auk þess verði fjárhæðarmörk heimildar til niðurfellingar virðisaukaskatts hækkuð.
Hins vegar er lagt til að virðisaukaskattsívilnun fyrir tengiltvinnbifreiðar falli niður í lok næsta árs.
Innflutningur á rafmagnsrútum og -hjólum verði undanþeginn virðisaukaskatti
Ef frumvarpið nær fram að ganga verður jafnframt heimilt að fella niður virðisaukaskatt eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð að ákveðnu hámarki vegna innflutnings bifhjóls sem knúið er rafmagni eða gengur fyrir vetni, létt bifhjóls sem knúið er rafmagni eða reiðhjóls.
Auk þess verði heimilt að fella niður virðisaukaskatt af innflutning eða sölu á hópbifreið í almenningsakstri sem notar eingöngu metan, metanól, rafmagn eða vetni sem orkugjafa.
Virðisaukaskattur endurgreiddur vegna kaupa á hleðslustöðvum
Enn fremur er lagt til í drögunum að byggjendum og eigendum íbúðarhúsnæðis verði veitt heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á hleðslustöðvum í eða við íbúðarhúsnæði.
Auk þess verði núverandi heimild til að endurgreiða byggjendum og eigendum íbúðarhúsnæðis 60 prósent þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna við uppsetningu hleðslustöðva í eða við íbúðarhúsnæði aukin upp í 100 prósent.