Samfélagsmiðlarisinn Twitter hefur ákveðið að banna pólitískar auglýsingar. Þetta tilkynnti Jack Dorsey, forstjóri Twitter, í stöðuuppfærslu á Twitter í gær. Þar segir Dorsey að bannið eigi við alþjóðlega, ekki bara í Bandaríkjunum. Það sé trú fyrirtækisins að pólitískur boðskapur eigi að vinna sér inn útbreiðslu, en ekki kaupa hana.
We’ve made the decision to stop all political advertising on Twitter globally. We believe political message reach should be earned, not bought. Why? A few reasons…🧵
— jack 🌍🌏🌎 (@jack) October 30, 2019
Hlutverk samfélagsmiðla í lýðræðislegum kosningum, þar sem hægt er að nýta þá til að dreifa meðal annars röngum eða bjöguðum upplýsingum eða pólitískum áróðri sem á sér ekki fastar rætur í raunveruleikanum, hefur stóraukist á undanförnum árum samhliða því að hlutverk samfélagsmiðla á borð við Twitter og Facebook hefur orðið stærri hluti af daglegum neytendaveruleika milljarða manna um heim allan.
Dorsey útskýrði síðan ákvörðunina í röð stöðuuppfærslna þar sem hann sagði meðal annars að með því að heimila greiðslu fyrir aukna útbreiðslu á pólitískum skilaboðum væri verið að neyða skilaboðin upp á fólk sem hefði hvorki valið að fylgja viðkomandi reikningi né retweet-að skilaboðum af honum. Það eigi ekki að gera málamiðlun með val notenda um að nálgast slík skilaboð vegna peninga.
Twitter er uppáhaldssamfélagsmiðill Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, sem notar miðillinn oft á tíðum oft á dag til að miðla skoðunum sínum á mönnum og málefnum á hátt sem aldrei áður hefur tíðkast hjá jafn valdamiklum stjórnmálamanni. Það gerir hann meðal annars til að koma skilaboðum sínum ómenguðum til fylgjenda sinna, í stað þess að þau berist í gegnum hefðbundna fjölmiðla, sem Trump treystir ekki og ásakar ítrekað um að vera óvini fólksins sem breiði út falsfréttir. Notkun Trump á Twitter hefur verið í umræðunni í forvali Demókrata vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum á næsta ári en hluti frambjóðenda, meðal annars Kamala Harris, hafa bent á að Trump, sem setur ítrekað fram rangar eða tæpar staðhæfingar, brjóti gegn notendaskilmálum Twitter með slíkri hegðun og því eigi fyrirtækið að loka reikningi hans.
Facebook ætlar ekki að fylgja í fótspor Twitter
Sá samfélagsmiðill sem hefur legið mest undir gagnrýni vegna meintrar misnotkunar á honum í pólitískum tilgangi er Facebook. Fyrirtækið risavaxna tilkynnti í gær um enn eitt gríðarlega arðbæra ársfjórðungin í rekstri sínum. Á þriðja ársfjórðungi ársins 2019 nam hagnaður Facebook 6,1 milljarði Bandaríkjadala, eða um 760 milljörðum króna. Til samanburðar er búist við að fjárlög næsta árs á Íslandi verði um eitt þúsund milljarðar króna. þ.e. öll eyðsla íslenska ríkisins. Megnið af tekjuaukningu Facebook er vegna vaxandi auglýsingatekna.
Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook, sagði við kynningu á uppgjörinu að það þyrfti að gæta varúðar gagnvart aukinni reglusetningu gagnvart pólitískri orðræðu. Í lýðræðisríki væri ekki rétt að einkafyrirtæki væru að ritskoða stjórnmálamenn eða fréttir. Hann myndi halda áfram að meta hvort það væri gagnlegt að leyfa pólitískar auglýsingar á Facebook og enn sem komið er væri það hans skoðun að það væri betra að leyfa þær.