Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir óhjákvæmilegt að stefna í átt að fullum aðskilnaði ríkis og þjóðkirkju. Þetta kemur fram í grein sem hún skrifar í Morgunblaðið í dag.
Þar segir Áslaug Arna að nýtt samkomulag, sem undirritað var í september síðastliðnum, milli ríkis og þjóðkirkjunnar feli í sér að hún verði ekki lengur eins og hver önnur ríkisstofnun. „Hún mun fremur líkjast frjálsu trúfélagi sem ber ábyrgð á eigin rekstri og fjárhag. Þessar breytingar eru til mikilla bóta og óhjákvæmilegt að stefna áfram á sömu braut í átt að fullum aðskilnaði. Þangað til og þrátt fyrir samkomulagið mun þjóðkirkjan áfram njóta stuðnings og verndar íslenska ríkisins á grundvelli ákvæðis stjórnarskrárinnar.“
Áslaug Arna segir í greininni að sjálfstæð kirkja óháð ríkisvaldinu samrýmist betur trúfrelsi og skoðanafrelsi en sérstaðan sem þjóðkirkjan hefur notið í íslenskri stjórnskipan. „Í mínum huga er ekki spurning um það að kirkjan getur vel sinnt öllum verkefnum sínum og þar á meðal sáluhjálp og margvíslegri félagslegri þjónustu óháð ríkinu. Ég er einnig þeirrar skoðunar að margir muni fylgja kirkjunni að málum þótt fullkominn aðskilnaður verði á endanum á milli hennar og ríkisvaldsins.“
Lengi verið meirihluti fyrir aðskilnaði
Samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup sem var birtur fyrir viku síðan er meirihluti Íslendinga hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju, eða rúmlega 55 prósent, en það er svipað hlutfall og undanfarin ár. Ríflega fimmtungur er hvorki hlynntur né andvígur aðskilnaði ríkis og kirkju, og tæplega fjórðungur er andvígur.
Munur er á viðhorfi fólks eftir því hvað það kysi til Alþingis ef kosið yrði í dag. Þeir sem kysu Pírata eru líklegastir til að vera hlynntir aðskilnaði ríkis og kirkju, en þeir sem kysu Framsóknarflokkinn líklegastir til að vera andvígir. Á eftir þeim koma kjósendur Miðflokksins og Sjálfstæðisflokksins.
Í niðurstöðunum kemur fram að um þriðjungur Íslendinga beri mikið traust til þjóðkirkjunnar. Það er svipað hlutfall og í fyrra en þá lækkaði það frá fyrri mælingum. Nær þriðjungur ber hvorki mikið né lítið traust til þjóðkirkjunnar og um þriðjungur ber lítið traust til hennar.
Um 19 prósent eru ánægð með störf Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Íslands.
Rúmur þriðjungur ekki í þjóðkirkjunni
Þeim sem eru skráðir í þjóðkirkjuna hefur fækkað jafnt og þétt á undanförnum árum, þrátt fyrir að íbúum hafi fjölgað umtalsvert. Nú eru 231.684 einstaklingar skráðir í þjóðkirkjuna en þeir voru 253.069 árið 2009 þegar fjöldin náði hæstu hæðum. Alls eru um 64 prósent þeirra rúmlega 360 þúsund manna sem búa á Íslandi því skráðir í þjóðkirkjuna. Það þýðir að rúmlega þriðjungur landsmanna er ekki skráður í hana, eða tæplega 129 þúsund manns.
Nýtt samkomulag undirritað
Þann 6. september síðastliðinn undirrituðu forsætisráðherra, dómsmálaráðherra, fjármálaráðherra, og forseti kirkjuþings, nýjan viðbótarsamning um endurskoðun á kirkjujarðarsamkomulaginu frá 1997 og samningi um rekstrarkostnað kirkjunnar frá 1998.
Þjóðkirkjan fær árlega framlög frá ríkinu á grundvelli kirkjujarðasamkomulagsins sem og framlög sem renna til Kirkjumálasjóðs og Jöfnunarsjóðs sókna. Til viðbótar fær þjóðkirkjan greidd sóknargjöld.
Með nýja samningnum er fyrirkomulag greiðslna til þjóðkirkjunnar einfaldað mjög. Nú fær kirkjan fastar greiðslur á hverju ári sem taka aðeins breytingum á sömu almennu launa- og verðlagsforsendum sem liggja til grundvallar í fjárlögum hvers árs. Greiðslurnar miða því ekki lengur við fjölda starfsmanna kirkjunnar.
Jafnframt mun kirkjan frá og með 1. janúar á næsta ári sjálf annast alla launavinnslu, bókhald og launagreiðslur til starfsmanna sinna. Auk þess verða felld úr gildi sérstök lög um ákveðna sjóði sem starfað hafa hingað til á vegum kirkjunnar.
„Með þessu nýja samkomulagi er stigið mjög stórt skref í þá átt að þjóðkirkjan verði fyrst og fremst trúfélag sem beri sjálft ábyrgð á eigin rekstri og fjárhag. Kirkjan nýtur enn stuðnings íslenska ríkisins líkt og kveðið er á um í stjórnarskrá lýðveldisins en fjarlægist það mjög að vera ríkisstofnun með þessum samningi. Áfram munu lög um stöðu stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar gera ráð fyrir ákveðnum tengslum á milli þjóðkirkjunnar og ríkisins,“ sagði í fréttatilkynningu á vef stjórnarráðsins vegna gerð samningsins.
Endurskoðun kirkjujarðarsamkomulagsins
Þann 10. janúar 1997 samdi ríkið um að kirkjan léti af hendi kirkjujarðir að frátöldum prestssetrum og að andvirði seldra kirkjujarða rynni í ríkissjóð. Á móti mundi ríkissjóður greiða laun biskups Íslands, vígslubiskupa, 138 starfandi presta og prófasta kirkjunnar og 18 starfsmanna Biskupsstofu, annan rekstrarkostnað prestsembætta og Biskupsstofu, námsleyfi, fæðingarorlof, veikindi og fleira.
Með nýja viðbótarsamningnum hafa kirkjan og ríkið komið sér saman um nýja útfærslu á þessu samkomulagi sem felur í sér verulega einföldun á greiðslum vegna samkomulagsins.
2,7 milljarðar ár ári vegna kirkjujarðarsamkomulagsins
Í nýja samningum skuldbindur íslenska ríkið sig til þess greiða árlega gagngreiðslu til þjóðkirkjunnar að fjárhæð 2.374.700.000, miðað við gagngjaldið 2018. Greiðslan er nú óháð fjölda biskupa, prófasta, presta og annarra starfsmanna þjóðkirkjunnar.
Auk þess skuldbindur ríkið sig til að greiða til þjóðkirkjunnar 368.400.000, miðað við gagngjaldið 2018, vegna samnings ríkisins við þjóðkirkjuna frá 1998 um rekstrarkostnað vegna prestsembætta og prófasta, rekstrarkostnað biskupsstofu, framlag til Kristnisjóðs og sérframlög til þjóðkirkjunnar. Þessi fjárhæð verðbætist líkt og árlega gagngreiðsla hér fyrir ofan.
Auk þessara tveggja greiðslna vegna kirkjujarðarsamkomulagsins mun ríkið greiða þjóðkirkjunni 711.400.000 krónur á ári, miðað við verðlag ársins 2018, í stað þeirra framlaga sem runnið hafa til Kirkjumálasjóðs og Jöfnunarsjóðs sókna. Sú fjárhæð mun taka breytingum í samræmi við almennar launa- og verðlagsforsendur sem liggja til grundvallar í fjárlögum hvers árs, með sama hætti og ofangreindar greiðslur.
Til viðbótar við þessi framlög greiðir ríkið sóknargjöld til trúfélaga, en þar er þjóðkirkjan lang fyrirferðamest enda eru tæplega tveir af hverjum þremur landsmönnum í henni. Sóknargjöld næsta árs eru áætluð 2.567 milljónir króna og því má áætla að tæplega 1,7 milljarðar króna af þeirri upphæð renni til þjóðkirkjunnar.