„Að viðhalda tengslum kirkjunnar við ríkisvaldið er í sjálfu sér ekki forgangsmál kirkjunnar. Skyldur kirkjunnar liggja fyrst og fremst í því að rækta og viðhalda tengslunum við þjóðina.“ Þetta segir Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, í umsögn um þingsályktunartillögu um fullan aðskilnað ríkis og kirkju. Hún tekur þó fram að Biskupsstofu hugnist að kirkjan verði áfram þjóðkirkja landsins.
Þjóðkirkjunni hugnast að vera enn þjóðkirkja
Þingsályktunartillaga þingmanna fjögurra flokka um að fela ríkisstjórninni að leggja fram frumvarp um fullan, lagalegan og fjárhagslegan aðskilnað ríkis og kirkju var lagt fram í september síðastliðnum. Tillagan er nú til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd og hefur nefndin sent umsagnabeiðnir sendar á yfir fjörutíu trú- og lífsskoðunarfélög.
Biskupsstofa er á meðal þeirra sem skilað hafa inn umsögn um þingsályktunartillögunni. Í umsögninni segir að með tillögunni sé í raun verið að leggja til að ríkið haldi sig ekki við opinber trúarbrögð og að mati biskups kann það að teljast eðlilegt í því fjölmenningarsamfélagi sem orðið er hér á landi.
Þá segir í umsögninni að Biskupsstofu hugnist að hér á landi verði engin opinber trúarbrögð en að þjóðkirkjan verði enn þjóðkirkja, líkt og fyrirkomulagið er í Noregi um þessar mundir. Enda skipi þjóðkirkjan stóran sess í hugum meirihluta íslensku þjóðarinnar og kristin gildi í hávegum höfð í lagasetningu og lífsviðhorfi sem birtist í stofnunum þjóðfélagsins.
Kirkjan hefur ekki fjárhagslegt bolmagn til að sinna hlutverki sínu
Tekið er þó fram í umsögninni að ef fram komi frumvörp um fullan, lagalegan og fjárhagslegan aðskilnað ríkis og kirkju þá leggi biskup áherslu á að ákveðin atriði höfð að leiðarljósi. Þar á meðal að kirkjan hafi ekki fjárhagslegt bolmagn til að sinna hlutverki sínu sem boðberi kristinnar trúar af því að ríkið hafi fengið svo mikið af eignasafni kirkjunnar. Þær kirkjujarðir sem þjóðkirkjan afhenti ríkinu árið 1907 voru um fjórðungur allra jarða landsins á þeim tíma.
Biskup bendir því á að fjárhagsleg sérstaða þjóðkirkjunnar gagnvart öðrum trú- og lífsskoðunarfélögum liggi í kirkjujarðarsamkomulaginu frá 1997 um greiðslur fyrir kirkjujarðirnar.
Jafnframt bendir biskup á að með kirkjujarðarsamkomulaginu hafi orðið viss aðskilnaður milli ríkis og kirkju. Auk þess hafi verið enn lengra gengið í átt að sjálfstæði kirkjunnar í september síðastliðnum þegar stjórnvöld og fulltrúum þjóðkirkjunnar undirrituðu viðbótarsamkomulag. Með samkomulaginu verða prestar kirkjunnar ekki embættismenn ríkisins og þjóðkirkjunni tryggðir rúmir þrír milljarðar úr ríkissjóði á hverju ári.
Menntun presta nýtist vel í almannaþágu
Auk þess er tekið fram í umsögninni að þjónusta kirkjunnar nái til alls landsins og að þjóðkirkjan sinni lögboðnum verkefnum og skyldum sem önnur trú- og lífsskoðunarfélög gera ekki. Í greinargerð með tillögunni er gert ráð fyrir að skoðað verði hvort önnur trú- og lífsskoðunarfélög taki að sér sambærileg samfélagsleg verkefni og þjóðkirkjan sinnir nú. Í því sambandi minnir biskup á að menntun presta kirkjunnar og reynsla nýtist einkar vel til þjónustu í almannaþágu.
„Samfylgd kirkju og þjóðar hefur verið farsæl um aldir og kirkjunnar fólk, bæði leikið og lært er og verður ávallt til þjónustu reiðubúið þjóðinni til heilla. Að viðhalda tengslum kirkjunnar við ríkisvaldið er í sjálfu sér ekki forgangsmál kirkjunnar. Skyldur kirkjunnar liggja fyrst og fremst í því að rækta og viðhalda tengslunum við þjóðina,“ segir að lokum í umsögninni.