Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segist hafa verið mjög slegin yfir því sem fram kom í fréttaskýringaþætti Kveiks í gærkvöldi. Hún segir að nú blasi við að lyfta þurfi hverjum steini og að rannsaka þurfi þetta mál ofan í kjölinn.
„Það er alveg ljóst ef þessir málavextir reynast réttir, eins og þeir voru birtir þarna, þá er þetta mál hið versta og til skammar fyrir Samherja og mikið áhyggjuefni fyrir íslenskan sjávarútveg og íslenskt atvinnulíf,“ segir Katrín í hádegisfréttum RÚV.
Í fréttaskýringaþætti Kveiks í gærkvöldi kom meðal annars fram að vísbendingar væru um að greiðslur upp á að minnsta kosti 1,4 milljarða króna frá Samherja til hóps sem inniheldur meðal annars tvo ráðherra í Namibíu, væru mútugreiðslur og að viðskipti fyrirtækisins í Afríkulandinu væru skýr dæmi um spillingu. Umfjöllunin var unnin í samstarfi Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks.
Katrín segir að stóra málið sé að íslensk fyrirtæki fylgi lögum, bæði íslenskum lögum og lögum í þeim löndum sem þau starfa. Hún segir að fyrst og fremst þurfi að rannsaka þetta mál ofan í kjölinn og bendir á sú vinna sé hafin hjá héraðssaksóknara og að skattrannsóknarstjóri hafi jafnframt fengið gögn frá namibískum yfirvöldum.
„Hins vegar verð ég að segja að eins og þetta mál blasti við í gær þá fannst mér það minna óþægilega á gamaldags nýlenduherra sem eru að nýta veikleika stjórnkerfi viðkomandi lands,“ segir Katrín.
Hún segir jafnframt að hennar mati muni viðeigandi yfirvöld hér á landi þurfa að eiga í samstarfi við yfirvöld í öðrum löndum um framhald málsins.