Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir í samtali við RÚV að það beri aldrei einn ábyrgð í stöðu eins og Samherji er kominn í. „Það bara liggur í hlutarins eðli. Ábyrgðin í svona málum liggur hjá fyrirtækinu sjálfu. Það gefur alveg augaleið. Það er fyrirtækið sjálft sem þarf að svara fyrir þær ásakanir sem bornar eru upp.“
Kristján Þór segir Kveiksþáttinn í gær, þar sem fjallað er um greiðslur Samherja til stjórnmálamanna og hátt settra embættismanna í Namibíu hafa verið mjög sláandi. Hann segir það vera klárt mál að þessar upplýsingar skaði íslenskan sjávarútveg. Mikilvægt sé að málið verði rannsakað.
Hann segist enn fremur ekki hafa haft afskipti af Samherja, rekstri eða öðru, frá því hann hætti í stjórn fyrir tæpum tveimur áratugum. „En auðvitað hefur maður taugar til fyrirtækisins og starfseminnar fyrir norðan. Eðlilega, þetta er stór partur af norðlensku samfélagi.“
„Ég hef engin afskipti af þessu eða upplýsingar um viðskipti“
Í frétt Stundarinnar í gær kom fram að Kristján Þór hefði í ágúst árið 2014, en þá gegndi hann embætti heilbrigðisráðherra, komið inn á fund með þremenningunum frá Namibíu sem unnu að því gegn mútugreiðslum að útvega Samherja kvóta í landinu. Fundurinn hefði verið haldinn í höfuðstöðvum Samherja í turninum í Borgartúni í Reykjavík og hefði Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, kynnt Kristján Þór sem „sinn mann“ í ríkisstjórninni. Þessu heldur Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri útgerðar Samherja í Namibíu, fram í frétt Stundarinnar.
Kristján Þór segir við RÚV að fyrir rúmum fimm árum hafi hann rekið inn nefið á skrifstofuna og heilsað þessum mönnum og átt við þá spjall um daginn og veginn. „En grundvallaratriði í þessum málum fyrir mig er að ég hef engin afskipti af þessu eða upplýsingar um viðskipti eða neitt því um líkt og þar af leiðandi hef ég ekkert að fela í þessum efnum,“ segir Kristján. Hann segir það algjöra tilviljun að hann hafi verið á skrifstofu Samherja á sama tima og þessir menn.
„Þannig hittist bara á í þessu tilfelli að ég á persónulegan fund með einstaklingi sem ég hef þekkt í langan tíma um allt önnur mál að þá rekst ég á þessa einstaklinga,“ segir Kristján Þór og þvertekur við RÚV á sama tíma fyrir það að hafa verið boðaður til fundar á skrifstofunni á þessum tíma. Hann segist ekkert hafa heyrt af viðskiptunum sem fjallað er um í Kveik fyrr en hann hafi fengið upplýsingabeiðni frá Stundinni í síðustu viku.
Samherjamenn verða að svara sjálfir fyrir sig
Kristján segist hafa heyrt í nokkrum starfsmönnum Samherja undanfarna daga. Meðal annars Þorsteini Má Vilhelmssyni forstjóra. „Ég var bara að spyrja hvernig honum liði einfaldlega,“ segir Kristján Þór og bætir því við að Samherjamenn verði að svara því sjálfir hvað átt var við þegar fram kom að þeir hefðu sagt að Kristján Þór væri þeirra maður.
„Því verða þeir að svara sjálfir. Ég hef hingað til bara litið á mig sem minn eigin og minnar fjöslkyldu og er þekktur fyrir flest annað en að vera mjög undanlátssamur. Ég hef nú frekar orð á mér fyrir að vera frekar stífur í framgöngu,“ segir hann í samtali við RÚV.