Frétt af afsögnum þeirra Bernhardt Esau, sjávarútvegsráðherra Namibíu, og Sacky Shanghala, dómsmálaráðherra landsins, er nú komin á vef New York Times en þar er vísað í frétt Reuters um málið. Þar er talað um að afsagnirnar tengist meintri mútuþægni sem tengist íslenska sjávarútvegsfyrirtækinu Samherja.
Ráðherrarnir sögðu af sér í kjölfar þess að Hage Geingob, forseti Namibíu, lýsti því yfir að hann ætlaði sér að reka þá úr ríkisstjórninni. Frá þessu var greint á namibíska fréttamiðlinum Namibian Sun.
Í gærkvöldi var opinberað, í ítarlegri umfjöllun, að hópur sem inniheldur meðal annars Shangala og Esau hefðu fengið 1,4 milljarða króna hið minnsta greidda frá Samherja á undanförnum árum. Auk þess hefði ráðherra í Angóla fengið greiðslur.
Í sérstökum tvöföldum Kveiks-þætti sem sýndur var á RÚV í gærkvöld kom fram að vísbendingar væru um að þarna væri um mútugreiðslur að ræða til að komast yfir kvóta í landinu með sem ódýrustum hætti. Umfjöllunin var unnin í samstarfi Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks.
Einnig var fjallað um Samherjamálið í miðlum í Noregi og Svíþjóð í dag og gær þar sem málið er reifað.