Forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar hafa tjáð sig margir hverjir um umfjöllun Kveiks og Stundarinnar í gærkvöldi um meintar mútugreiðslur Samherjamanna í Namibíu. Mikil viðbrögð hafa verið á samfélags- og fréttamiðlum vegna málsins.
Formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir, tjáir sig um umfjöllunina á Facebook-síðu sinni í morgun en þar segir hún að eitt af aðalsmerkjum nýfrjálshyggjunnar, það sem hún kallar mannkynssögulegu lygi, sé að tryggja að kapítalistar greiði ekki eðlilega til samfélagsins í gegnum skattkerfið.
„Með því er auðvitað verið að tryggja að þeir geti sankað sífellt meira og meira af gæðunum til sín og með því auðvitað meira og meira af völdunum, en þetta gerir það líka að verkum að þeir geta orðið eins og aðalsmenn fyrri alda; þeir fá endalaus tækifæri til að láta eitthvað rakna til góðgerðarstarfsemi og málefna sem að þeim eru hugleikinn eða málaflokka sem að þeir vita að skipta fólk máli í sinni daglegu tilveru, eins og það að geta stundað skemmtilega útivist, vegna þess að fjármagnið sem hið opinbera hefur yfir að ráða dugar ekki til að sinna þörfum fólks,“ skrifar hún.
Sólveig Anna segir þetta vera svokallað „win-win fyrirbæri“. „Þorsteinn þessi græddi persónulega 5,4 milljarða í fyrra, ríkir sem kóngur langefst í stigveldinu, með sinn ráðherra við völd í málaflokknum sem skiptir öllu máli, og fjármálaráðherra sem er ekkert ef ekki hagsmuna-gæslumaður íslenskrar auðstéttar og getur, líkt og kóngur, dólað út milljón hér og milljón þar, svo að fólk fyllist lotningu yfir gjafmildinni og ríku-manna-göfuglyndinu.“
Það sé ekkert smávegis kerfi sem fólk lifi í.
Eitt af aðalsmerkjum nýfrjálshyggjunnar, þeirrar mannkynssögulegu lygi, er að tryggja að kapítalistar greiði ekki...
Posted by Sólveig Anna Jónsdóttir on Wednesday, November 13, 2019
„Höguðu sér eins og svívirðilegustu nýlenduherrar“
Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir að myndin sem Kveikur og Stundin teikni upp sé af heimsvaldasinnuðum, gráðugum arðræningjum sem svífist einskis.
„Körlum sem þykjast samfélagslega ábyrgir hér á landi en gæti ekki verið meira sama um aðstæður þjóðar suður í Afríku. Körlum sem komu í kjölfar vel heppnaðar þróunarsamvinnu og ryksuguðu upp auðlindir í eigin þágu, höguðu sér eins og svívirðilegustu nýlenduherrar. Þróunarsamvinnunni var hætt vegna hrunsins sem varð einmitt vegna svona hegðunar. Ógeðslegt!“ skrifar hún.
Myndin sem Kveikur og Stundin teikna upp er af heimsvaldasinnuðum, gráðugum arðræningjum sem einskis svífast. Körlum sem...
Posted by Drífa Snædal on Tuesday, November 12, 2019
Hver eru næstu skref þjóðarinnar?
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, spyr á Facebook hver næstu skref þjóðar sem fékk innsýn í starfsemi og starfshætti stórfyrirtækis sem hagnast hafi ævintýralega á sjávarauðlind íslensku þjóðarinnar verði.
Hver eru næstu skref þjóðar sem í kvöld fékk innsýn í starfsemi og starfshætti stórfyrirtækis sem hagnast hefur ævintýralega á sjávarauðlind íslensku þjóðarinnar?
Posted by Ragnar Þór Ingólfsson on Tuesday, November 12, 2019
Gjörsamlega lamaður eftir umfjöllunina
„Ég held að það sama gildi um mig og alla þá sem horfðu á Kveikþáttinn að fólk sé gjörsamlega lamað eftir þessa umfjöllun.“ Þetta segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi.
Hann telur það vera gjörsamlega ólíðandi að aðilar eins og Samherji „sem fá úthlutað miklum aflaheimildum úr sameiginlegri fiskveiðiauðlind okkar Íslendinga, skuli voga sér að setja og soga landið og þjóðina inn í þessa gjörspilltu og ógeðfelldu aðferðir við að komast yfir aflaheimildir og undan skattgreiðslum til þessara fátæku þjóðar.“
Ég held að það sama gildi um mig og alla þá sem horfðu á Kveikþáttinn að fólk sé gjörsamlega lamað eftir þessa...
Posted by Vilhjálmur Birgisson on Tuesday, November 12, 2019