Þorsteinn Már Baldvinsson, einn aðaleigenda Samherja, hefur ákveðið að stíga tímabundið til hliðar sem forstjóri. Þetta er gert í samkomulagi við stjórn fyrirtækisins vegna yfirstandandi innri rannsóknar á ætluðum brotum dótturfélags í Namibíu. Í yfirlýsingu frá Samherja segir að ráðstöfunin gildi þar til að niðurstöður þeirrar rannsóknar Samherja á eigin ætluðum brotum liggja fyrir. Rannsóknin, sem er í höndum alþjóðlegu lögmannsstofunnar Wikborg Rein, mun heyra beint undir stjórn félagsins.
Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair Group, hefur tekið tímabundið við stöðu forstjóra Samherja.
Í yfirlýsingunni er haft eftir Eiríki S. Jóhannessyni, stjórnarformanni Samherja, að þetta skref sé tekið til að tryggja sem best hlutleysi rannsóknarinnar. „Við viljum stunda heiðarleg viðskipti og leggjum okkur fram um að starfa í samræmi við gildandi lög og reglur.“
Þar segir enn fremur að til þessa hafi engin yfirvöld haft samband við Samherja en að fyrirtækið muni „að sjálfsögðu starfa með þeim stjórnvöldum sem kunna að sýna starfsemi Samherja á Íslandi, í Namibíu eða annars staðar áhuga.“
Björgólfur Jóhannsson segir Samherja gegna mikilvægu hlutverki í sjávarútvegi á alþjóðavísu og beri við ábyrgð gagnvart sínu fólki og viðskiptavinum. „Ég er dapur yfir þessum kringumstæðum en ég mun gera mitt besta að gæta hagsmuna Samherja og starfsfólksins.“
Í yfirlýsingunni segir að ekki sé að vænta frekari umfjöllunar af hálfu Samherja um málið „fyrr en staðreyndir úr ofangreindri rannsókn taka á sig skýrari mynd.“
Þetta er þriðja yfirlýsingin sem Samherji sendir frá sér í þessari viku vegna umfjöllunar um ætlaðar mútugreiðslur, skattsvik og peningaþvætti fyrirtækisins í Namibíu og víðar, sem opinberuð var á þriðjudag.
Í fréttaskýringaþætti Kveiks þá um kvöldið kom meðal annars fram að vísbendingar væru um að greiðslur upp á að minnsta kosti 1,4 milljarða króna frá Samherja til hóps sem inniheldur meðal annars tvo ráðherra í Namibíu, væru mútugreiðslur og að viðskipti fyrirtækisins í Afríkulandinu væri skýrt dæmi um spillingu. Umfjöllunin var unnin í samstarfi Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks. Báðir ráðherrarnir sögðu af sér embætti í gær.
Í yfirlýsingu sem Samherji sendi frá sér í kjölfar þáttarins segir að svo virðist sem að Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi verkefnastjóri Samherja í landinu, hafi „hugsanlega flækt Samherja í viðskipti sem kunni að vera ólögmæt.“ Það séu mikil vonbrigði að sögn Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra og annars aðaleiganda Samherja. Jóhannes steig fram sem uppljóstrari í þættinum og greindi frá því að hann hefði framið margháttuð lögbrot í starfi sínu fyrir Samherja, þegar hann vann að því að tryggja fyrirtækinu verðmætan kvóta í Namibíu ódýrt. Hann sagði að allt sem hann gerði hefði verið gert að fyrirskipan Þorsteins Más og Aðalsteins Helgasonar, sem var yfir starfsemi Samherja í Namibíu á árum áður. Jóhannes hætti störfum hjá Samherja í júlí 2016.
Jóhannes hefur um nokkurt skeið unnið með yfirvöldum í Namibíu við rannsókn á ætluðum brotum Samherja þar og hefur þegar gefið skýrslu hjá embætti héraðssaksóknara á Íslandi.
Þorsteinn Már sagði í yfirlýsingunni á þriðjudag að stjórnendum Samherja væri illa brugðið eftir umfjöllunina. „Ekki einungis við það að Jóhannes staðhæfi að hann hafi tekið þátt í starfsemi af því tagi sem hann lýsir en ekki síður að hann skuli einnig beina ásökunum sínum að fyrrum samstarfsfólki sínu hjá Samherja. Þetta eru ekki vinnubrögð sem við könnumst við.“
Ef rannsókn fari fram á viðskiptunum í Namibíu hafi „Samherji ekkert að fela.“
Jóhannes var líka sérstaklega nefndur á nafn í yfirlýsingu sem Samherji sendi frá sér í daginn fyrir umfjöllun Kveiks og Stundarinnar og þar sagt að honum hefði verið sagt upp störfum hjá Samherja árið 2016 vegna „óásættanlegrar framgöngu hans og hegðunar.“ Það hafi gerst í kjölfar þess að Samherji hefði orðið „þess áskynja í ársbyrjun 2016 að ekki væri allt með felldu í rekstrinum í Namibíu“ og sent íslenskan fyrrverandi rannsóknarlögreglumann til landsins til að rannsaka málið.
Í fyrri yfirlýsingum hefur Samherji sagt að Jóhannes beri einn ábyrgð á lögbrotunum. Í umfjöllun Kveiks og Stundarinnar kom fram að ætlaðar mútugreiðslur til ráðamanna í Namibíu fá Samherja hefðu haldið áfram í nokkur ár eftir að Jóhannes lét af störfum hjá fyrirtækinu. Sú síðasta sem miðlarnir eru með upplýsingar um var greidd í janúar 2019.