Sett verða upp veggspjöld með upplýsingum um góða sjúkdómastöðu íslenskra búfjárstofna og hversu viðkvæmir þeir eru fyrir nýju smiti á helstu komustöðum til landsins. Veggspjöldin eru hluti aukinni fræðslu til ferðamanna um innflutning afurða úr dýraríkinu. Þetta kemur fram í skýrslu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um vernd búfjárstofna og bætta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu.
Leyfa innflutning á fersku kjöti í janúar
Í júní síðastliðnum var frumvarp Kristjáns Þórs Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um að heimila innflutning á ófrystu kjöti samþykkt á Alþingi. Á sama tíma kynnti ráðherra aðgerðaáætlun með mótvægisaðgerðum til þess að verja íslenska búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Í aðgerðaraáætluninni er að finna 17 aðgerðir.
Sjö aðgerðum er nú þegar lokið samkvæmt nýrri skýrslu ráðherra. Þar á meðal hafa viðbótartryggingar verði settar gagnvart innfluttu kalkúnakjöti, kjúklingakjöti og eggjum. Auk þess sem óskað hefur verið eftir viðbótartryggingum vegna innflutts svínakjöts og nautakjöts.
Í skýrslu ráðherra kemur jafnframt að fyrirhugað er að fimm aðgerðum til viðbótar verði lokið fyrir 1. janúar 2020. Þar á meðal hefur ráðherra falið Matvælastofnun að tryggja aukna fræðslu til ferðamanna um innflutning afurða úr dýraríkinu.
Hluti verkefnisins felst í því að setja upp veggspjöld til upplýsinga á helstu komustöðum til landsins fyrir árslok 2019. „Mikilvægt er að farþegar til Íslands fái fræðslu um góða sjúkdómastöðu íslenskra búfjárstofna og hversu viðkvæmir þeir eru fyrir nýju smiti,“ segir skýrslunni.
Vill setja á fót tryggingarsjóð vegna búfjársjúkdóma
Í skýrslunni er jafnframt fjallað um aðgerð sem sem telst til lengri tíma verkefna en það er að tekið verði til skoðunar að setja á fót setja á fót sérstakan tryggingasjóð vegna tjóns sem framleiðendur geta orðið fyrir vegna búfjársjúkdóma.
Ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra óskaði eftir því við Bændasamtök Íslands að samtökin upplýstu um hugmyndir sínar um slíkan tryggingasjóð, meðal annars um mótun hans, uppbyggingu og í hvaða tilfellum réttur til bóta gæti stofnast.
Tillögur Bændasamtaka Íslands bárust í október síðastliðnum og hefur ráðuneytið tillögurnar til skoðunar, samkvæmt skýrslunni. Þá hefur ráðuneytið til skoðunar möguleg úrræði í nágrannaríkjunum og innan Evrópusambandsins.
Fundu sjúkdómsvaldandi bakteríur í íslensku kjöti
Í skimum á vegum Matvælastofnunar, heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins fannst bæði STEC E. coli í kjöti af íslensku sauðfé og nautgripum. Þetta var í fyrsta sinn sem skimað hefur verið fyrir eiturmyndandi tegund E.coli í kjöti af sauðfé og nautgripum hérlendis en sýnatakan fór fram í verslunum á kjöti frá mars til desember 2018.
STEC fannst í 30 prósent sýna stofnunarinnar af lambakjöti og 11,5 prósent sýna af nautgripakjöti. STEC er eiturmyndandi tegund E. coli sem getur valdið alvarlegum veikindum í fólki en algeng sjúkdómseinkenni eru niðurgangur en einnig getur sjúkdómurinn leitt til nýrnaskaða, svokallað HUS (Hemolytic Urea Syndrome).
Þá greindust ekki salmonella og kampýlóbakter í svína- og alifuglakjöti í skimum stofnunarinnar að undanskilinni salmonellu sem fannst í einu sýni af svínakjöti.