Stjórn Arion banka hefur ákveðið að fara fram á að viðskipti Samherja við bankann verði skoðuð ítarlega. Stjórn Íslandsbanka mun jafnframt „væntanlega“ ræða mál útgerðarfyrirtækisins í dag. Landsbankinn vill hins vegar ekki tjá sig um einstaka viðskiptavini. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Þáttur norska bankans DNB, sem er í hluta til í eigu norska ríkisins, í bankaviðskiptum Samherja í Namibíu er nú til rannsóknar innan bankans. Stundin greindi frá því að DNB hafi lokaði bankareikningum félags Samherja, Cape Cod F, í skattaskjólinu Marshall-eyjum í fyrra. Alls fóru 9,1 milljarður í gegnum umrætt félag en Samherja notaði það til að greiða laun sjómanna fyrirtækisins í Afríku frá árinu 2010.
Brynjólfur Bjarnason, stjórnarformaður Arion banka, segir í samtali við Morgunblaðið að stjórn bankans hafi beðið um ítarlega athugun á þessu málum en að öðru leyti hyggist stjórnin ekki tjá sig um mál einstakra viðskiptavina bankans.
Stjórnarformaður Íslandsbanka, Friðrik Sophusson, segir jafnframt í samtali við blaðið að stjórn Íslandsbanka muni funda í dag og að mál Samherja verði væntanlega rædd á fundinum. Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs Landsbankans, segir aftur á móti í svari til til Morgunblaðsins að bankinn geti ekki tjáð sig um málefni sem snúi að einstaka viðskiptavinum bankans.
Ekki liggur fyrir hve stór hluti erlendrar starfsemi Samherja hefur átt í viðskiptum við íslenska banka og því erfitt að segja til um hvort að skoðun Arion banka og Íslandsbanka muni varpa ljósi á starfsemi Samherja í Namibíu.
Björgólfur Jóhannsson, sem tekið hefur við stöðu forstjóra Samherja í kjölfar þess að Þorsteinn Már Baldvinsson vék til hliðar, segir í samtali við Morgunblaðið að eitt skip, sem er hluti af erlendri starfsemi fyrirtækisins, sé fjármagnað í gegnum íslenskan banka.
Hann segir jafnframt að fyrirtækið sé reiðubúið til þess að veita allar þær upplýsingar sem kostur er á til þess að aðstoða opinbera aðila og aðra við að upplýsa málið. „Ef bankar ætla að skoða þetta þá munum við að sjálfsögðu upplýsa eins og kostur er. Við höfum ekkert að fela,“ segir Björgólfur.