Beiðni um lausn úr varðhaldi gegn tryggingu sexmenninganna Sacky Shanghala, Bernard Esau, James Hatuikulipi, Ricardo Gustavo, Tamson Hatuikulipi og Pius Mwatulelo verður tekin fyrir í dag. Afgreiðslu málsins hefur tvívegis verið frestað.
Sexmenningarnir áttu að koma fyrir dómara síðasta fimmtudag en málinu var þá frestað til föstudags til að mennirnir fengju ráðrúm til þess að ráðfæra sig við lögmenn sína. Á föstudaginn greindi fréttamiðilinn The Namibian síðan frá því að að þeir kæmu ekki fyrir dómara þann daginn þar sem lögmenn þeirra, þeir Mike Hellens og Dawie Joubert frá Suður-Afríku, væru ekki með atvinnuleyfi í Namibíu og gætu því ekki tekið málið að sér.
Eins og fram hefur komið í fréttum þá voru sexmenningarnir handteknir í vikunni í tengslum við rannsókn á Samherjaskjölunum og spillingu er tengist úthlutun aflaheimilda í Namibíu. Þeir eiga yfir höfði sér ákæru fyrir skipulagða glæpastarfsemi.
Aðilarnir sem um ræðir eru Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra, James Hatuikulipi, sem hætti sem stjórnarformaður namibísku ríkisútgerðarinnar Fishcor í síðustu viku, Bernhardt Esau, sem sagði af sér sem sjávarútvegsráðherra, Tamson 'Fitty' Hatuikulipi, tengdasonur Esau sem jafnframt er frændi James Hatuikulipi, Ricardo Gustavo, samstarfsmaður hans og Pius 'Taxa' Mwatelulo, sem einnig tengist James Hatuikulipi fjölskylduböndum.
Yfirvöld í Namibíu, Íslandi og Noregi rannsaka nú ýmsa þætti sem tengjast starfsemi Samherja í Namibíu, og eru þar á meðal upplýsingar um mútugreiðslur, skattaundanskot og peningaþvætti.
Enginn hefur enn fengið stöðu grunaðs manns á Íslandi vegna þessa, og hafa ekki farið fram neinar formlegar yfirheyrslur vegna rannsóknar mála.