Kyrrsetning togarans Heinaste er enn í gildi í Namibíu en namibíski fjölmiðillinn The Namibian fjallar um málið í dag. Í frétt miðilsins er það orðað svo að togarinn hafi verið gerður upptækur.
Togarinn er í eigu Esju Holding, félags sem íslenska sjávarútvegsfyrirtækið Samherji á stóran hlut í, en hann var kyrrsettur af dómara að kröfu yfirvalda í Namibíu fyrir rúmur tveimur vikum.
Í svari Samherja við fyrirspurn Kjarnans staðfestir fyrirtækið að skipið Heinaste hafi verið kyrrsett af namibískum stjórnvöldum í tengslum við rannsókn Fiskistofu Namibíu á ætluðum brotum vegna veiða innan lokaðs svæðis.
Þá kemur fram hjá Samherja að þessar ásakanir séu ótengdar þeim sem settar hafa verið fram á hendur fyrirtækinu vegna starfseminnar í Namibíu. Lögmenn í Namibíu hafi fullvissað Samherja um að enginn grundvöllur sé fyrir ásökunum um að Heinaste hafi veitt innan lokaðs svæðis. Unnið sé að því að aflétta kyrrsetningu skipsins.
Arngrímur Brynjólfsson, skipstjóri á Heinaste, var handtekinn og leiddur fyrir dómara þann 21. nóvember síðastliðinn en samkvæmt The Namibian var hann leystur úr haldi gegn tryggingu en rannsókn stendur nú yfir hjá yfirvöldum þar í landi.
Skipstjórinn sendi á þessum tíma fjölmiðlum yfirlýsingu þar sem hann sagðist ekki hafa gerst sekur um brot. Hann sagði að það hefði komið honum á óvart að vera sakaður um að hafa siglt skipi inn á lokað svæði. Arngrímur var sakaður um að hafa verið við veiðar á hrygningarsvæði undan ströndum Namibíu. Honum var gert að leggja inn vegabréfið sitt og var máli hans frestað fram í lok janúar.
Í frétt RÚV um málið fyrir tveimur vikum kom fram að Heinaste hefði áður ratað í fjölmiðla. Tvö fyrrverandi samstarfsfyrirtæki Samherja í Namibíu hefðu stefnt félagi Samherja, Esju Holding í Namibíu, til að koma í veg fyrir að skipið yrði selt. Dómari vísaði aftur á móti kröfu félaganna frá.