Umhverfis- og auðlindaráðuneyti hefur kynnt í samráðsgátt áform um breytingar á lögum um rammaáætlun. Núverandi rammaáætlun þykir ekki henta gagnvart vindorku vegna sérstöðu hennar. Ráðuneytið leggur því til að lögunum verði breytt svo hægt sé að móta skýra stefnu hins opinbera um vindorku hér á landi og leyfisveitingarkerfi hennar.
Rammaáæltun henti ekki vindorkukostum
Núverandi lög um rammaáætlun eru talin henta frekar hefðbundnari virkjunarkostum en vindorkukostum. Sem auðlind er vindurinn nokkurn veginn óþrjótandi, ólíkt öðrum orkukostum og takmarkast helst af því landrými sem til staðar er.
Vindurinn er jafnframt ekki jafn staðbundinn orkukostur og hefðbundnari virkjunarkostir enda hægt að hagnýta hann á flestum stöðum landsins. Þessi orkukostur krefst því almennt styttri undirbúnings- og framkvæmdatíma en vatnsafls- eða jarðvarmavirkjanir. Enn fremur er tiltölulega auðvelt að taka niður og fjarlægja slík mannvirki af virkjunarstað sé tekin ákvörðun um að hætta starfsemi.
Því stefnir umhverfis- og auðlindaráðherra á að leggja fram lagafrumvarp um breytingar á málsmeðferð og meðhöndlun rammaáætlunar, á þann hátt að tekið sé mið af séreðli vindorkunnar sem orkukosts.
Með þeirri breytingu megi gera mats- og ákvarðanaferlið með vindorkukosti markvissara, einfaldara og skjótara en nú er. Auk þess felst í breytingunni að slíkt ferli þurfi að byggjast á skýrri opinberri stefnumörkun um staðsetningu vindorkuvirkjana á Íslandi.
Samkvæmt ráðherra kæmi slík stefna í veg fyrir að vindorkuver byggist upp á stöðum þar sem þau eru ekki æskileg, til dæmis vegna náttúrufars, sjónmengunar eða kostnaðarsamra tenginga við raforkunetið.
Fer vel saman við vaxandi raforkuþörf samfélagsins
Hingað til hefur vindorka verið lítið notuð til raforkuframleiðslu hér á landi en gætt hefur vaxandi áhuga á undanförnum árum á slíkum framkvæmdum.
Í áformum ráðherra segir að vindorka henti vel sem þriðja stoðin í orkubúskap Íslands á móti vatnsafli og jarðvarma. Megi það meðal annars rekja til stefnu og áforma stjórnvalda um aukinn hraða í orkuskiptum og almennrar aukningar raforkunotkunar hjá heimilum og minni fyrirtækjum.
„Skynsamleg uppbygging vindorku fer því vel saman við vaxandi raforkuþörf samfélagsins, auknar áherslur á orkuöryggi, betri nýtingu flutnings- og dreifikerfi raforku sem og staðbundnar lausnir í orkumálum,“ segir í áformunum.