Sendum SMS-textaskilaboðum og MMS-myndskilaboðum heldur áfram að fjölga í íslenska farsímakerfinu. Á fyrri hluta ársins 2019 voru send 92,3 milljónir SMS-a, sem er 3,5 prósent fleiri en send voru á sama tímabili í fyrra.
Myndskilaboðin voru ívið færri, eða um 2,3 milljónir á fyrstu sex mánuðum ársins. Þeim fjölgaði þó hlutfallslega mun meira., eða um 19,2 prósent milli ára.
Þetta kemur fram í nýrri tölfræðiskýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar um íslenska fjarskiptamarkaðinn sem birt var nýverið, og sýnir þróun hans á fyrri hluta árs 2019.
Viðskiptavinir Nova eru allra notenda duglegastir við SMS og MMS skeytasendingar. Alls senda þeir 56,4 prósent af öllum sendum SMS-um og 48,2 prósent af öllum sendum MMS-um.
SMS-ið hefur átt undir högg að sækja sem samskiptamáti á undanförnum árum í kjölfar þess að önnur samskiptaforrit, á borð við t.d. Messenger og WhatsApp, hafi rutt sé til rúms og orðið meginleið margra notenda til að eiga stafræn samskipti og bjóða upp á mun fleiri möguleika í samskiptum en gömlu góðu SMS-in hafa gert.
Þá tók hins vegar að halla undir fæti hjá SMS-unum. Þeim fækkaði jafnt og þétt ár frá ári og í lok árs 2017 voru þau send SMS hérlendis orðin 174 milljónir. Þessi þróun átti sér stað samhliða því að ferðamönnum á Íslandi fjölgaði gríðarlega – þeir fóru úr um hálfri milljón í rúmlega tvær milljónir á örfáum árum – og notendum íslenska fjarskiptakerfisins sömuleiðis.
Í fyrra varð hins vegar breyting á. Þá fjölgaði SMS-skeytum sem send voru úr símum um 3,4 milljónir á fyrri hluta þess árs, samanborið við sama tímabil árið áður. Á árinu 2018 í heild fjölgaði sendum SMS-um alls um sex milljónir og voru alls um 180 milljónir slíkra send í gegnum íslenska farsímakerfið á því ári.