Heimagisting í gegnum vefsíður á borð við Airbnb og Homeaway hefur dregist töluvert saman í ár. Á fyrstu tíu mánuðum ársins 2019 var fjöldi gistinótta í gegnum slíkar síður 1,48 milljónir. Það eru 174 þúsund færri gistinætur en á sama tímabili í fyrra eða 10,5 prósent fækkun.
Mest munaði um mánuðina eftir fall WOW air en í maí dróst slík gisting saman um nærri 30 prósent. Þetta kemur fram í áætluðum gistináttatölum Hagstofunnar.
Framboð á íbúðum einnig dregist saman
Airbnb gisting á Íslandi tók af stað árið 2015 þegar erlendum ferðamönnum tók að fjölga verulega. Markaðshlutdeild gistingarinnar jókst hratt og náði hámarki í 38 prósentum í fyrra, að því er fram kemur í ferðaþjónustugreiningu Landsbankans.
Það sem af er þessu ári hefur markaðshlutdeild Airbnb hins vegar lækkað í fyrsta sinn síðan 2015 og fjöldi gistinótta í gegnum vefsíðuna dregist hlutfallslega meira saman en á öðrum gististöðum.
Í greiningu Landsbankans kemur jafnframt fram að framboð af Airbnb íbúðum og húsum hefur dregist saman á höfuðborgarsvæðinu í ár. Í júlí dróst framboð íbúða saman um 8,4 prósent miðað við sama mánuð í fyrra en það er mesti samdráttur í framboði frá því að Airbnb ævintýrið hófst hér á landi, samkvæmt Landsbankanum.
138 milljónir vegna skráninga heimagistinga
Mikil aukning hefur orðið á fjölda skráðra heimagistinga í kjölfar þess að ferðamálaráðherra ákvað að efla eftirlit með heimagistingu í júní 2018 eða alls tvöfalt fleiri skráningar.
Þrátt fyrir þessa aukningu í skráningu áætlar sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu að um helmingur skammtímaleigu hér á landi fari enn fram án tilskilinna leyfa eða skráningar.
Frá júní 2017 til ágúst 2019 nam samanlögð upphæð skráningargjalda, stjórnvaldssekta og fyrirhugaðra stjórnvaldssekta vegna óskráðra heimagistinga rúmlega 138 milljónum. Þar af voru fyrirhugaðar og álagðar stjórnvaldssektir vegna átaksins 94.6 milljónir.
2,2 milljónir ferðamanna komi til landsins árið 2021
Töluvert færri ferðamanna heimsóttu landið á þessu ári eða alls 12,8 prósent færri ferðamanna á tímabilinu nóvember 2018 til október 2019, samanborið við sama tímabil árið áður.
Þrátt fyrir þessa fækkun hefur hagfræðideild Landsbankans spáð því að komum erlendra ferðamanna til landsins fjölgi um 3 prósent á næsta ári og um 5 prósent árið 2021 og verði þá hátt í 2,2 milljónir, litlu færri en metárið 2017.