Beiðni níu þingmanna úr Sjálfstæðisflokki, Viðreisn, Vinstri grænum, Pírötum og Samfylkingu um að heilbrigðisráðherra flytji Alþingi skýrslu um dánaraðstoð var samþykkt í gær. Óskað var eftir því að fjallað yrði um tíðni, ástæður, reynslu og skilyrði dánaraðstoðar þar sem hún er leyfð. Auk þess vilja þingmennirnir að skoðað sé að gera viðhorfskönnun á meðal heilbrigðisstarfsmanna um afstöðu þeirra til dánaraðstoðar.
Endurtekin beiðni um slíka skýrslu
Dánaraðstoð er þýðing á gríska orðinu evþanasía sem merkir að binda enda á líf af ásetningi til þess að leysa viðkomandi undan óbærilegum sársauka eða þjáningum.
Beiðni um skýrslu um dánaraðstoð hafði áður verið lögð fram fimm sinnum á Alþingi. Beiðni um skýrsluna var leyfð á Alþingi í júní síðastliðnum með atkvæðagreiðslu en skýrslan barst aldrei þinginu. Í september 2018 var þingályktunartillaga um slíka beiðni jafnframt send til velferðarnefndar þar sem hún dagaði uppi.
Tuttugu umsögnum var þó skilað inn um þá tillögu sem lögð var fram í september. Meðal þeirra sem skiluðu inn umsögn var Embætti landlæknis, Alþýðusamband Íslands, Siðmennt, Kaþólsku kirkjan á Íslandi og Læknafélag Íslands.
Mikill meirihluti Íslendinga fylgjandi dánaraðstoð
Embætti landlæknis mælti eindregið gegn þingsályktunartillögunni í sinni umsögn og sagði að ekki væri ráð að færa umræðuna um dánaraðstoð inn á Alþingi Íslendinga. Frekar ætti að ræða málefnið í samnorrænum vettvangi utan þings og án þrýstings frá stjórnmálum.
Lífsvirðing, félag um dánaraðstoð, hvatti hins vegar Alþingi eindregið til að samþykkja þingsályktunartillöguna. Í nýrri könnun sem Maskína framkvæmdi fyrir hönd Lífsvirðingar kemur fram að mikill meirihluti Íslendinga segist vera hlynntur því að þeir sem vilji binda enda á líf sitt vegna sjúkdóms sem er ólæknandi eða ástands sem þeir meta óbærilegt fái að gera það með aðstoð.
Þá segjast fleiri Íslendingar vera hlynntir dánaraðstoð í könnun Lífvirðingar en í svipaðri könnun Siðmenntar frá árinu 2015, eða alls 77,7 prósent árið 2019 og 74,5 prósent árið 2015.
Flestir fylgjandi „hollensku leiðinni“
Í könnun Lífsvirðingar var jafnframt spurt um hvaða aðferð Íslendingar ættu að nota ef dánaraðstoð yrði lögleyfð en í dag er notast við þrjár meginaðferðir við dánaraðstoð í heiminum. Alls völdu 47 prósent leiðina: „Læknir gefur banvænt lyf í æð“ sem oft er nefnd „hollenska leiðin“ en á ensku heitir hún euthanasia og er notuð í Hollandi, Belgíu og Lúxemborg. Í þeim Hollandi og Belgíu var þessi aðferð leyf með lögum árið 2002 en í Lúxemborg árið 2008.
Í Hollandi eiga sjúklingar ekki rétt á líknardrápi og lækni ber aldrei skylda til að aðstoða við líknardráp. Hann má hins vegar aðstoða ef hann er sannfærður um að sjúklingur uppfyllir skilyrði reglna og telur ekki aðra lausn draga úr eða lina þjáningar sjúklingsins. Árið 2017 fengu 4,4 prósent þeirra sem létust í Hollandi aðstoð við að deyja eða 6585 einstaklingar.
Árið 2010 var gerð könnun á afstöðu heilbrigðisstarfsfólks hér á landi til dánaraðstoðar. Niðurstaðan var sú að dánaraðstoð þótti réttlætanlegt hjá 18 prósent lækna og 20 prósent hjúkrunarfræðinga en aðeins 3 prósent þeirra vildu verða við slíkri ósk. Þingmennirnir sem lögðu fram fyrrnefnda skýrslubeiðni óskuðu eftir því að slík könnun verði framkvæmd aftur á meðal heilbrigðisstarfsfólks.
Nauðsynleg umræða um viðkvæmt mál
Í greinargerð beiðninnar segir að á síðustu árum hafi reglulega komið upp umræða í íslensku samfélagi um dánaraðstoð, líknardráp eða sjálfsvíg með aðstoð og að ljóst sé að umgjörð um þetta viðkvæma mál sé mismunandi eftir löndum.
Þingmennirnir telja að til þess að umræðan um dánaraðstoð geti þroskast og verið málefnaleg þá verði að liggja fyrir upplýsingar um stöðu þessara mála í öðrum löndum, svo og upplýsingar um afstöðu heilbrigðisstarfsfólks hér á landi. Því sé mikilvægt að stjórnvöld safni þeim upplýsingum saman og setji fram á skýran og hlutlausan hátt.
„Beiðni þessi felur ekki í sér afstöðu til þess hvort ástæða sé til að breyta lögum hérlendis. Tilgangurinn er að treysta grundvöll nauðsynlegrar umræðu um viðkvæmt mál,“ segir að lokum í greinargerðinni.