Leiguverð á Íslandi hefur hækkað hratt á síðustu árum. Leiga á árinu 2019 er um 45 prósent hærri en hún var árið 2013. Ef aðeins nágrannasveitarfélög höfuðborgarsvæðisins eru skoðuð þá hefur leiga hækkuð um 52 prósent á þessu tímabili. Þá er leiguverð hæst á höfuðborgarsvæðinu eða um 201 þúsund krónur að miðgildi en leiguverð á Íslandi er með því hæsta í Evrópu.
Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.
Miklar hækkanir á síðustu árum
Leigufjárhæð hefur verið um 182 þúsund krónur á mánuði á árinu sé miðað við miðgildi þinglýstra samninga það sem af er ári og stendur hún í stað að raunvirði frá því í fyrra eftir miklar hækkanir árin þar á undan.
Þannig hefur leiga hækkað um 42 prósent á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2013, 52 prósent í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins og 33 prósent annars staðar. Leiguverð er hæst á höfuðborgarsvæðinu, næst hæst á Suðurnesjum en lægst á Norðvesturland en miðgildi leiguverðs þar er um 116.000 krónur.
Leiguverð í Reykjavík er töluvert hærra en í helstu borgum Evrópu. Í nýjustu könnun Eurostat kemur fram að leiguverð á 3ja svefnherbergja íbúð um 260.500 krónur á mánuði í Reykjavík eða um 2.100 evrur. Var það hærra en í flestum öðrum borgum, en þó lægra en í Stokkhólmi, Osló og Kaupmannahöfn.
Fermetrinn á 2700 krónur
Flestar leiguíbúðir á Íslandi eru litlar eða meðalstórar. Á höfuðborgarsvæðinu eru til að mynda 80 prósent leiguíbúða á höfuðborgarsvæðinu 98 fermetrar eða minni og helmingur íbúða 73 fermetrar eða minni.
Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins er helmingur íbúða 90 fermetrar eða minni og annars staðar er helmingur 79 fermetrar eða minni. Leiguverð á hvern fermetra er um 2.700 krónur á höfuðborgarsvæðinu en um 1.900 krónur í nágrannasveitarfélögum þess og 1.800 krónur annars staðar miðað við miðgildi.
Eitt af hverjum fimm heimilum á leigumarkaði undir lágtekjumörkum
Alls voru 17,5 prósent fullorðinna einstaklinga 18 ára og eldri á leigumarkaði hér á landi í september síðastliðnum og 19 prósent fullorðinna á höfuðborgarsvæðinu.
Í viðhorfskönnun Íbúðalánasjóðs frá því í júní á þessu ári kemur fram að meirihluti þjóðarinnar telur óhagstætt að leigja eða alls 92 prósent. Þá kemur fram í sömu könnun að einungis 51 prósent leigjenda telji sig búa við húsnæðisöryggi. Algengasta ástæða þess að fólk telur sig ekki búa við húsnæðisöryggi er vegna þess að fólk hefur ekki efni á leigu eða verð of hátt.
Þá kom fram í nýjustu lífskjararannsókn Hagstofu Íslands að lágtekjuhlutfall meðal leigjenda er hærra en á meðal fólks sem býr í eigin húsnæði og hefur verið svo frá því að mælingar hófust. Í fyrra voru 20 prósent heimila á leigumarkaði undir lágtekjumörkum en 6 prósent heimila í eigin húsnæði.