Tölvuleikaiðnaðurinn á Íslandi hefur vaxið hratt á síðustu árum. Í dag starfa alls sautján tölvuleikjafyrirtæki hér á landi með 345 starfsmenn. Á árunum 2009 til 2016 tvöfaldaðist velta í greininni úr nærri 7,5 milljörðum króna í 14,5 milljarða króna á ári.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu um stöðu tölvuleikjaiðnaðarins á Íslandi. Skýrslan var unnin af Northstack fyrir Samtök leikjaframleiðenda, IGI, í samstarfi við Samtök iðnaðarins og Íslandsstofu en þetta er í fyrsta sinn sem yfirgripsmikil skýrsla er unnin um iðnaðinn á Íslandi.
Meirihluti tekna kom erlendis frá
Í skýrslunni kemur fram að tekjur íslenska leikjaiðnaðarins eru uppsafnað 100 milljarðar króna síðustu tíu ár og koma þær að mestu erlendis frá en gjaldeyristekjur greinarinnar eru um 95 prósent af veltu fyrirtækja í greininni.
Þessi vöxtur hefur aðallega verið drifin áfram af CCP og flaggskipi þeirra, leiknum Eve Online. CCP hefur verið og er enn langstærsta fyrirtækið í greininni hér á Íslandi. Árið 2017 hætti Plain Vanilla daglegum rekstri á Íslandi og í kjölfarið dróst velta greinarinnar umtalsvert saman.
Enn fremur kemur fram í skýrslunni að frá árinu 2009 hafi íslensk leikjafyrirtæki gefið út 83 leiki eða alls 1,5 leik að meðaltali í hverjum mánuði. Þá hafi sumir af fremstu fjárfestum heims á þessu sviði fjárfest í íslenskum leikjafyrirtækjum, þar með talið Sequoia, Tencent og Index Ventures.
Í skýrslunni segir að miðað við vöxt tölvuleikjaþróunar á alþjóðavísu þá sé tölvuleikjaiðnaðurinn hér á landi einn af þeim fáu hugverkaiðnuðum sem gæti orðið að umtalsverðum iðnaði.
Þá sé jafnframt ein helsta hindrun áframhaldandi vaxtar í greininni hér á landi skortur á sérfræðingum og fólki með menntun sem tengist tölvuleikjaiðnaði. Í skýrslunni er jafnframt bent á leiðir til að styðja við og lækka rekstrarkostnað fyrirtækjanna og hvernig ýta megi undir fjármögnunarúrræði ungra leikjafyrirtækja.
Hér má lesa skýrsluna í heild sinni.