Guðni Th. Jóhannesson ætlar að bjóða sig fram á ný til embættis forseta Íslands. Þetta tilkynnti hann í nýársávarpi sínu sem hann flutti í beinni útsendingu í dag.
„Í þessum efnum er ákvörðun aldrei sjálfsögð. Hana hlýtur maður að taka að vel athuguðu máli, í ljósi fenginnar reynslu, í samráði við sína nánustu. Þegar fyrri forsetar stóðu í svipuðum sporum í fyrsta sinn var tilkynning um framboð gefin þegar nær dró fyrirhuguðum kjördegi en flest er breytingum háð í heimi hér. Þeir, sem sinna þessu embætti, móta það eftir eigin óskum og tíðaranda, með hliðsjón af venju og hefð, og innan þess ramma sem stjórnskipun leyfir. Stjórnarskrárnefnd situr nú að störfum, eins og svo oft áður. Nefndarmenn hafa hreyft þeirri hugmynd að takmarka hversu lengi hver megi vera á forsetastóli. Þá hafa þeir rætt aðrar breytingar á ákvæðum stjórnarskrár um völd og verksvið þjóðhöfðingjans. Þessu ber að fagna,“ sagði Guðni í ávarpi sínu.
Guðni var kjörinn forseti sumarið 2016 og tók við embættinu í ágúst sama ár. Hann hefur mælst nær fordæmalaust vinsæll forseti á sama tíma og vantraust til stjórnmála hefur mælst mikið.
Í ávarpinu sagði Guðni að þegar hann hafi verið að leggja drög að því hafi hann verið spurður hvað hann óttaðist mest um framtíð Íslands. „Eftir
stutta umhugsun kvaðst ég helst óttast að ágreiningur og illdeilur yfirgnæfi
einingu um grunngildi okkar, og sömuleiðis að almenn vongleði og dugur víki
smám saman fyrir svartsýni og doða.
Og hvað þarf til að svo fari ekki? Hver eru grunngildin? Á hverju getur
vonin byggt? Ekki á lygi og svör verða seint einhlít en sé okkur ókleift að
sameinast um það sem hér fer á eftir er illt í efni: Við þurfum að verja og efla
það samfélag sem veitir öllum jöfn tækifæri til að sýna hvað í þeim býr en knýr
fólk um leið til að leggja fram sinn sanngjarna skerf í almannaþágu. Enginn má
skerast úr leik og allra síst með bellibrögðum. Við þurfum samfélag þar sem þeir
njóta aðstoðar sem á henni þurfa að halda, þar sem enginn í nauðum þarf að
ganga með betlistaf. Við þurfum samfélag víðsýni, umburðarlyndis og réttlætis,
samfélag fjölbreytni, frelsis og friðar.“
Forsetinn sem varð til í beinni útsendingu
Í nýársávarpinu sínu á fyrsta degi ársins 2016 tilkynnti Ólafur Ragnar Grímsson að hann yrði ekki í framboði í forsetakosningunum sem fram fóru sumarið 2016.
Miklar bollaleggingar hófust um hverjir myndu bjóða sig fram. Nöfn eins og Jón Gnarr, Katrín Jakobsdóttir, Andri Snær Magnason og Össur Skarphéðinsson voru hávær í umræðunni.
Öll þessi atburðarás átti sér stað nánast í beinni útsendingu á RÚV. Þann 4. apríl, fyrir þremur árum síðan, hafði staðið til að halda stuttan aukafréttatíma til að fara yfir þá sögulega atburði sem voru að eiga sér stað. Þann dag flakkaði Sigmundur Davíð um höfuðborgarsvæðið með tösku sem innihélt skjal með ósk um þingrofsheimild. Hann fór meðal annars til fundar við Ólaf Ragnar og bar upp þá ósk, sem forsetinn hafnaði. Ólafur Ragnar hélt svo blaðamannafund í kjölfarið þar sem hann útskýrði hvað hefði átt sér stað.
Í setti hjá RÚV var Guðni Th. Jóhannesson í hlutverki sérfræðings og hann ílengdist í gegnum maraþonútsendinguna, leiddi þjóðina í gegnum fáránleika atburðana sem voru að eiga sér stað og sló í gegn.
Í kjölfarið fór áskorunum að rigna yfir Guðna um að bjóða sig fram til forseta.
Hættur við að hætta við
Ólafur Ragnar hafði hins vegar runnið á blóðlyktina og ákvað að hætta við að hætta við að bjóða sig aftur fram 18. apríl. Hann taldi þjóðina þurfa á sér að halda „í þessu umróti óvissu og mótmæla.“
Í fyrstu skoðanakönnun sem gerð var eftir þetta mældist Ólafur Ragnar með 53 prósent stuðning. En þrýstingur á Guðna um framboð hélt áfram. Í könnun sem birt var í byrjun maí var enginn marktækur munur á stuðningi við hann og Ólaf Ragnar. 51 prósent sögðust vilja Guðna, sem hafði ekki tilkynnt um framboð, sem forseta en tæp 49 prósent Ólaf Ragnar.
Ólafur Ragnar rataði svo í vandræði í byrjun maí þegar Kjarninn greindi frá beinum tengslum eiginkonu hans, Dorritar Moussaieff, við aflandsfélög. Ólafur hafði áður neitað því afdráttarlaust á CNN að fjölskylda hans hefði nokkur tengsl við slík.
Þann 5. maí tilkynnti Guðni svo um framboð sitt.
Davíð mætir
Þremur dögum síðar æstust leikar enn frekar þegar Davíð Oddsson, fyrrverandi borgarstjóri, forsætisráðherra, utanríkisráðherra, seðlabankastjóri og formaður Sjálfstæðisflokksins, og þáverandi og núverandi ritstjóri Morgunblaðsins, ákvað að bjóða sig líka fram.
Daginn eftir það tilkynnti Ólafur Ragnar að hann væri hættur við að hætta við að hætta. Opinbera skýringin var að Guðni og Davíð væru nægilega frambærilegir frambjóðendur til að hann gæti stigið af sviðinu. Þeim væri treystandi.
Hann þótti reka nokkuð litlausa og örugga kosningabaráttu sem einkenndist af því að reyna að gera ekki mistök á meðan að Davíð lagðist í drullukast og reyndi eftir fremsta megni að draga Guðna, sem hann taldi sinn helsta andstæðing, þangað niður til sín. Á vígvöll sem Davíð þekkir vel.
Á endanum vann Guðni nokkuð öruggan sigur og varð við það sjötti forseti Íslands. Hann fékk 39,1 prósent atkvæða. Davíð varð fjórði á eftir Guðna, Höllu Tómasdóttur og Andra Snæ Magnasyni með 13,7 prósent atkvæða þrátt fyrir að hafa rekið dýrustu kosningabaráttuna. Á endanum kostaði hvert atkvæði sem Davíð fékk hann 1.103 krónur.
„Minn sigur var varnarsigur í ljósi þróunarinnar,“ sagði Guðni hógvær í útvarpsviðtali skömmu eftir kosningarnar.
Samstöðuforsetinn
Guðni Th. Jóhannesson tók svo formlega við embætti forseta Íslands 1. ágúst 2016 við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu. Hann hóf ræðu sína á því að þakka fyrir traustið sem honum hafi verið sýnt með kjörinu í embættið og sagðist taka við því með auðmýkt í hjarta. „Ég mun og vil þiggja ráð og leiðsögn frá ykkur öllum, fólkinu í landinu.“
Hann lauk ræðu sinni á því að segja að hann vildi að þjóðin stæði „saman um fjölbreytni og frelsi, samhjálp og jafnrétti, virðingu fyrir lögum og rétti. Stöndum saman um þessi grunngildi góðs samfélags, vongóð og full sjálfstrausts. Megi sú verða gæfa okkar um alla framtíð.“
Nokkrum vikum síðar náðist mynd af honum fyrir utan Dominos-pizzastað þar sem hann var að sækja Megaviku-tilboð fyrir fjölskylduna. Hann flutti erindi á Hinsegin dögum fyrstur íslenskra forseta. Hann hafnaði launahækkun sem honum var skammtað í október 2016. Hann lét mynda sig með buff frá Alzheimer-samtökunum. Hann sýndi æðruleysi og þolinmæði við fordæmalausa erfiðleika við að mynda ríkisstjórn eftir þingkosningarnar 2016.
Og þetta voru einungis fyrstu mánuðirnir í starfi.
Mikil ánægja samkvæmt könnunum
Undanfarin ár, áður en Guðni tók við embættinu, höfðu á bilinu 15-30 prósent landsmanna sagst vera óánægð með störf Ólafs Ragnars Grímssonar sem forseta, en ánægjan með störf hans mældist á bilinu 45-64 prósent. Mest mældist ánægjan með Ólaf Ragnar í febrúar 2013, þegar nýbúið var að kveða upp dóm í Icesave-málinu, og í síðustu mælingunni sem framkvæmd var áður en Ólafur Ragnar lét af embætti sumarið 2016.
Ánægja með störf Guðna er hins vegar miklu meiri. Í fyrstu könnun MMR um ánægju með forsetann sem framkvæmd var eftir að hann tók við sögðust 68,6 prósent vera ánægð með Guðna.
Þegar stuðningur við Guðna var kannaður í desember 2016 kom í ljós að 80 prósent aðspurðra voru ánægðir með störf hans. Þegar einungis var skoðað þá sem tóku afstöðu þá var stuðningur við hann 96 prósent.
Þannig hefur stuðningurinn verið nær sleitulaust síðan. Í mælingu MMR, sem birt var 9. apríl síðastliðinn, sagðist 81,6 prósent þjóðarinnar vera ánægð með störf forseta síns. um 93,5 prósent þeirra sem tóku afstöðu voru sáttir með hann.
Fréttin byggir að hluta til á fréttaskýringu sem birtist í Kjarnanum í apríl 2019.