Óttast er að uppistöðulón í Nýja Suður-Wales í Ástralíu þurrkist upp og að bæir verði þar með án vatns. Mjög lítið vatn er nú í lóninu og ólíklegt er að úrkoma sem spáð er um helgina muni breyta einhverju þar um.
Burrendong-stíflan í Macquarie-ánni miðlar vatni til bæja og landbúnaðarsvæða í miðhluta þessa fjölmennasta fylkis Ástralíu. Fyrir þremur árum var vatnsbúskapurinn góður, lónið yfirfullt, en síðan hefur tekið við mikið þurrkatímabil sem hefur haft gríðarlegar afleiðingar í för með sér; hamfarakennda skógarelda, svæðisbundinn vatnsskort og mögulega skort á stærri svæðum ef fram heldur sem horfir.
Í bænum Cobar hefur fólk um hríð þurft að fara sparlega með vatn, m.a. starfsmenn kolanáma sem eru margar á svæðinu. Vatnsaflsvirkjun, sem einnig nýtti vatn uppistöðulónsins, hefur verið stöðvuð tímabundið.
Til að bregðast við vandanum er meðal annars stefnt á að veita vatni úr Windamere-lóninu, sem er í um 200 kílómetra fjarlægð, inn á það svæði þar sem vatnsskortur er mestur. Vatni yrði á beint í aðra á og þaðan í Borrendong-lónið.
Um helgina er spáð rigningu og munu yfirvöld taka ákvörðun í næstu viku um hvort neyðarááætlanir komi til framkvæmda.
This drone footage captures just how dry Lake Burrendong is due to the drought affecting the state. Water levels at NSW's Burrendong Dam, have dropped to a critical low of 1.6 per cent. More on the story here https://t.co/soVdkrrMKY
— The Sydney Morning Herald (@smh) January 15, 2020
Drone footage by @nampix pic.twitter.com/rumeYTL77n
Í ítarlegri frétt dagblaðsins Sydney Morning Herald er rætt við sérfræðinga sem telja ólíklegt að úrkoma næstu daga muni nokkru skipta fyrir vatnsbúskap uppistöðulónsins. „Jarðvegurinn er svo þurr í augnablikinu að hann virkar eins og svampur,“ hefur blaðið eftir Stuart Khan, sérfræðingi við Háskólann í Nýja Suður-Wales. „Þegar þannig er komið þarf mjög mikla rigningu til.“
Uppistöðulónið við Burrendong-stífluna er eins og eyðimörk. Svæðið er gjörólíkt því sem áður þekktist, t.d. á flóðaárunum 1990 og 2010, er lónið varð yfirfullt. Allt frá árinu 2016 hefur vatnsyfirborðið farið lækkandi samhliða fordæmalausum þurrkum.
Þetta hefur þegar haft áhrif á útivist og ferðamennsku á þessu svæði, segir í frétt Sydney Morning Herald.
Vatnsveita Nýja Suður-Wales segir að „sögulegir“ þurrkar undanfarin ár skýri vatnsleysið í lóninu.
Þessir miklu þurrkar hafa haft áhrif á vatnsbúskap á fleiri stöðum og hamfaraeldarnir sem nú hafa geisað mánuðum saman og ekki sér fyrir endann á munu einnig hafa áhrif á ferskvatn í Ástralíu. Aska fellur í ár og vötn og mengar þau og endar svo í hafinu. En önnur hætta er einnig fyrir hendi. Þegar það mun loks rigna af ráði, sem gæti orðið töluverð bið á, gæti margvíslegt brak frá eldunum skolast út í ár og vötn. Þetta gæti valdið mengun en líka skemmdum, t.d. á virkjanamannvirkjum.
Þá er ónefnd sú staðreynd að hálfur til einn milljarður dýra hefur farist í eldunum. Hræ þeirra liggja á víðavangi og gætu mengað vatnsból manna og annarra dýra.
Bandaríkjamenn höfðu lofað Áströlum aðstoð við slökkvistarfið og ætluðu að senda fjórar stórar flugvélar sem geta borið mikið vatn og dreift yfir eldana. För þeirra til Ástralíu hefur hins vegar seinkað vegna hvirfilbylja í Alabama þar sem vélarnar eru og eldfjalls sem gýs á Filippseyjum og spillir flugleiðinni. Áströlum hefur þegar borist aðstoð frá Singapúr, Papúa Nýju-Gíneu, Fiji og Nýja-Sjálandi.