Hildur Guðnadóttir vann í kvöld Grammy-verðlaun fyrir að gera tónlistina við sjónvarpsþættina Chernobyl.
Congrats Best Score Soundtrack for Visual Media winner - 'Chernobyl' @hildurness, composer. #GRAMMYs
— Recording Academy / GRAMMYs (@RecordingAcad) January 26, 2020
Um er að ræða enn eina rósina í hnappagat Hildar sem hlaut Emmy-verðlaunin fyrir tónlistina við Chernobyl í september í fyrra og varð fyrr á árinu fyrsta konan til að vinna ein Golden Globe verðlaun fyrir tónlistina í kvikmyndinni Joker. Hún hlaut einnig verðlaun fyrir tónlistina í Joker á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum auk þess sem hú var valin sjónvarpstónskáld ársins á World Soundtrack Awards.
Þann 13. janúar var greint frá því að hún væri tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir tónlistina í Joker, en þau verða afhend 9. febrúar næstkomandi. Viku áður verða Bafta-verðlaunin afhend en Hildur er einnig tilnefnd til þeirra.
Chernobyl sjónvarpsþættirnir frá HBO fjalla um Chernobyl-slysið í apríl 1986 en það er alvarlegasta kjarnorkuslys sögunnar. Hildur greindi frá því í viðtali við The Guardian í desember að hún hafi farið til borgarinnar sem þættirnir fjalla um til að taka upp hljóðin í kjarnorkuverinu sem er þar enn. Þær upptökur notaði hún síðan í tónverkið fyrir þættina.
Fjallað var um Chernobyl-slysið í fréttaskýringu á Kjarnanum í fyrrasumar.