Allt í einu kom 17 ára gamall leikmaður eins og stormsveipur inn í NBA deildina, og sýndi fljótt að hann hafði óvenjulega hæfileika. Kobe Bryant er í fámennum hópi körfuboltamanna í sögunni, sem kom beint úr High School - Lower Merion High School í Philadelphia - inn í NBA deildina.
Einhver neisti fylgdi hans leik frá byrjun; hann var alveg óttalaus, óð áfram og sveif um eins og hann ætti auðveldara að athafna sig í loftinu en í öðrum aðstæðum.
Það er erfitt að skýra það út fyrir fólki, sem ekki þekkir vel til þess hvernig íþróttaheimurinn í Bandaríkjunum virkar, hversu mikið afrek það er að koma beint úr High School inn í deild þeirra bestu, og hafa jafn mikil áhrif á körfubolta sem íþrótt og hann hafði. Þúsundir leikmanna reyna að komast inn í deildina ár hvert, þegar nýliðavalið fer fram, en fáir eru valdir úr stórum hópi - og það að koma beint úr High School, er ekki á færi nema þeirra sem eru með sérstaka og fáséða hæfileika.
En viðbrögð nú - þegar hann er látinn - segja ákveðna sögu. Fólk trúir því varla að hann sé látinn. Hann var ódauðlegur í huga margra.
Hann var dýrlingur í Los Angeles, þar sem hann spilaði allan sinn fer - frá 1996 til 2016 - eftir að hann kom til félagins frá Charlotte Hornets, sem valdi hann í nýliðavalinu en skipti honum til LA nær samstundis.
Kobe Bryant, who made the leap directly from high school to a glittering 20-year career with the Los Angeles Lakers that established him as one of basketball’s all-time greats, was killed in a helicopter crash on Sunday north of Los Angeles. He was 41. https://t.co/wEp8T3izCz pic.twitter.com/9W8wNW2mu3
— The New York Times (@nytimes) January 27, 2020
Bryant var einn þeirra sem hafði ekki aðeins óvenjulega líkamlega hæfileika sem körfuboltamaður, heldur var hann einnig framúrskarandi í öllum hliðum leiksins. Umfram allt einkenndist ferill hans af því að vera liðsmaður og leiðtogi LA Lakers. Hann var 18 sinnum valinn í stjörnulið deildarinnar, vann NBA titilinn fimm sinnum, var í tvígang besti leikmaður úrslitakeppninnar, besti leikmaðurinn (MVP) árið 2008 og svo mætti lengi telja. Hann vann troðslukeppnina 1997 og var með sviðljósið á sér - skært og áberandi eins og LA er von - frá fyrsta degi.
Bryant hafði mikil áhrif á íþróttir, og lagði sig fram um að tengjast íþróttafólki í ólíkum íþróttagreinum um allan heim - í von um að geta nýtt frægð sína og störf, til að örva íþróttaiðkun fólks, ekki síst kvenna og ungmenna.
Gianna, dóttir hans, lést með honum í þyrluslysinu í gær, en þau voru á leið í leik með skólaliði hennar - þar sem Kobe var þjálfari. Í nýlegu viðtali við CNN talaði Kobe mikið um að konur myndu spila í NBA deildinni einn daginn, og að margar þeirra bestu hefðu nú þegar getu til þess.
Þá var aðdáun hans á evrópskum fótbolta þekkt. Hann talaði ítölsku reiprennandi, eftir að hafa búið í Rieti á Ítalíu sem krakki, en faðir hans - Joe Bryant - lék þar körfubolta sem atvinnumaður í tvö ár, eftir að hafa lokið ferli sínum í NBA deildinni. Hann sagði jafnan, að Ítalía væri hans annað land og að góðar æskuminningar væru ekki síst frá þessum fallega stað.
Gianna — Kobe Bryant's 13-year-old daughter who also died in the helicopter crash in California — was a passionate basketball player. In fact, Bryant saw Gianna, who wanted to play in the WNBA, as the heir to his legacy. https://t.co/pygnmkcwij
— CNN (@CNN) January 27, 2020
Þegar hann hætti að spila, árið 2016 - eftir ótrúlegan 20 ára feril - snéri hann aftur í heimsókn til Ítalíu, og gamlar heimaslóðir í Reggia Emilia, og talaði um hversu dásamlegur staður þetta væri. „Hér byrjaði mín saga,“ sagði hann, og heillaði fréttamenn og viðstadda upp úr skónum, þegar hann talaði á ítölsku. Borgar- og bæjaryfirvöld á þessu svæði á Ítalíu hafa minnst hans, eftir að andlát hans var staðfest, og sagt að hann hafi verið sannur vinur svæðisins.
Í þyrsluslysinu létust 9 manns, þar af var vinur Kobe Bryant, John Altobelli, körfuboltaþjálfari til áratuga, eiginkona hans Keri og dóttir þeirra, sem var vinkona Giönnu og liðsfélagi í skólaliði þeirra. Þá hefur verið staðfest að aðstoðarþjálfari skólaliðsins, Christina Mauser, hafi einnig látist. Rannsókn er nú hafin á slysinu og aðdraganda þess, en talið er að allir hafi látist samstundis þegar þyrlan hrapaði til jarðar.
Kobe, sem var 41 árs, lætur eftir sig eiginkonu, Vanessu, og þrjár dætur.
Það síðasta sem Kobe Bryant sendi frá sér á Twitter, áður en hann lést, voru hamingjuóskir til Lebron James, fyrir að hafa komist fram úr honum á lista yfir þá stigahæstu í deildinni.
Kobe var þekktur fyrir að æfa mikið, leggja mikið á sig til að verða sá besti, bæði í vörn og sókn. Hann sagði jafnan að hann hefði ekki fæðst með neina hæfileika, heldur lagt mikið á sig til að ná eins langt og hann náði.
Continuing to move the game forward @KingJames. Much respect my brother 💪🏾 #33644
— Kobe Bryant (@kobebryant) January 26, 2020