Hið óvenjulega landris á Reykjanesskaganum, rétt vestan við fjallið Þorbjörn, sem mælst hefur frá 21. janúar, hefur haldið áfram og er nú orðið yfir þrír sentímetrar þar sem það er mest. Vegna landrissins og aukinnar jarðskjálftavirkni á svæðinu var óvissustigi almannavarna lýst yfir á föstudag. Það er enn í gildi.
„Ris heldur áfram með svipuðum hætti, á svipuðum stað og með svipuðum hraða,“ segir Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við Kjarnann. Hann bendir á að jarðskjálftar séu algengir á þessum slóðum en að viðbúið sé að landrisið valdi fleiri skjálftum.
Benedikt segir að atburðir síðustu daga bendi til kvikusöfnunar, landrisið sé vísbending um það. „Við sjáum þenslumerki, það er að aukast spenna eða þrýstingur. Við teljum að þetta sé kvika miðað við hvernig þetta lítur út þó að það séu aðrir möguleikar í stöðunni.“
Í gær var komið fyrir mæli upp á Þorbirni og í dag er stefnt að því að setja upp fleiri GPS-mæla svo hægt sé að fylgjast enn betur með þróuninni. Í nótt mældust nokkrir jarðskjálftar tæpum tveimur kílómetrum norður af Grindavík. Sá stærsti var 3,5 að stærð.
Alls óvíst er hvort að sú atburðarás sem hófst með landrisi og jarðskjálftahrinu fyrir viku muni leiða til eldgoss. Mögulegt er að henni ljúki án frekari tíðinda.
Gosið á landi og í sjó
Reykjanesskaginn er yngsti hluti Íslands. Hann er mjög eldbrunninn og dregur nafn sitt af allmiklu gufu- og leirhverasvæði, eins og segir í ítarlegri grein Magnúsar Á. Sigurgeirssonar jarðfræðings í Náttúrufræðingnum frá árinu 1995.
Í samantekt Magnúsar og fleiri í Íslensku eldfjallavefsjánni kemur fram að eldstöðvakerfi Reykjaness hafi verið í meðallagi virkt. Norðurhluti þess renni inn í kerfi Svartsengis en syðstu níu kílómetrarnir séu undir sjávarmáli. Á nútíma (síðustu tíu þúsund árin eða svo) hafa þar orðið fleiri en fimmtán gos. Eldgos á landi hafa einkennst af hraunflæði en í sjó hafa orðið „surtseysk sprengigos“ eins og það er orðað.
Frá landnámi hefur þrisvar sinnum gosið á Reykjanesi, síðast á árunum 1211-1240 og eru þeir atburðir kallaðir Reykjaneseldar. Á því tímabili gaus nokkrum sinnum, þar af urðu þrjú gos í eldstöðvakerfi sem kennt er við Svartsengi. Eldgosin voru hraungos á 1-10 kílómetra löngum gossprungum. Gosvirkni á Reykjanesi-Svartsengi einkennist af goslotum eða eldum sem geta varað í áratugi og má búast við goslotu á um 1100 ára fresti.
Jónas Hallgrímsson vann drög að jarðeldasögu Íslands á árunum kringum 1840 og studdist hann við ýmsa annála við þá...
Posted by Handritasafn Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns on Monday, January 27, 2020
Í Reykjaneseldum urðu samanlagt minnst sex gos með hléum og vörðu frá tveimur til tólf ára. Gosvirknin hófst í eldstöðvakerfinu Reykjanesi og færðist svo í átt til Svartsengis á seinni stigum eldanna. Á Reykjanesi myndaðist eitt hraun en þrjú við Svartsengi. „Surtseysk gos“ urðu í sjó við Reykjanes í eldunum og mynduðu fjögur gjóskulög. Tvö þessara gjóskulaga hafa fundist á höfuðborgarsvæðinu, í um 45 kílómetra fjarlægð, að því er fram kemur á Íslensku eldfjalalvefsjánni.
Reykjaneseldar tóku til alls vestanverðs Reykjanesskagans. Sambærilegir eldar voru einnig í gangi í Brennisteinsfjöllum austast á skaganum á 10. öld. Á 12. öld urðu svo Krísuvíkureldar um miðhluta skagans, líkt og fram kemur í grein Magnúsar.
Gjóska í allt að 100 kílómetra fjarlægð
Allmörg neðansjávargos hafa orðið á Reykjaneshrygg síðustu
aldir. Öflugt gos varð suður af Eldeyjarboða árið 1783. Þá myndaðist eyja sem hvarf þó stuttu síðar
vegna ágangs sjávar. Á 19. öld er vitað um þrjú gos á þessum slóðum, segir í
Íslensku eldfjallavefsjánni, og á 20. öldinni varð nokkrum sinnum vart við ólgu
í sjó og gjóskuþústir sem líklega hafa verið af völdum lítilla neðansjávargosa.
Stærsta þekkta gos á Reykjanesi var sprengigos árið 1226. Í eldfjallavefsjánni segir að gjóska úr því hafi borist með vindum til austurs og norðausturs, þakið allan Reykjanesskagann og fundist í jarðvegi í allt að 100 kílómetra fjarlægð frá upptökum.
Þá segir að ritaðar heimildir gefi í skyn að gjóskufallið hafi valdið heilsubresti í búfé á nærliggjandi svæðum. Einnig kunni að hafa orðið jarðvegseyðing á vesturhluta Reykjanesskaga. Lengd gossins er ekki þekkt en sennilega hefur það varað í nokkrar vikur.
Í grein Magnúsar í Náttúrufræðingnum kemur fram að heimildir geti um fjölda gosa í sjó undan Reykjanesi eftir landnám en aðeins eitt á landi. Í heimildum sé hins vegar hvergi sagt berum orðum að hraun hafi runnið á Reykjanesi en helst er þó ýjað að því í frásögnum við árin 1210-1211.
Í Oddverjaannál segir til dæmis: „Elldur wm Reyianes: Saurli fann Elldeyjar hinar nyo enn hinar horfnar er alla æfi haufdu stadit.“
Sé þessi setning færð til nútímamáls er hún á þá leið að Sörli Kolsson hafi fundið „Eldeyjar hinar nýju en að hinar hafi horfið er áður stóðu“.
Magnús bendir á að alls sé óvíst hvort eða hvernig þessi frásögn tengdist þeirri Eldey sem við sjáum í dag en ekkert útiloki að hún sé frá þessum tíma.
Í öðrum frásögnum af gosum í sjó á 13. öld er ávallt talað um eldgos eða elda í sjó við eða fyrir Reykjanesi. Það bendir, að mati Magnúsar, ótvírætt til goss í sjó.
Í Páls sögu biskups segir við árið 1211: „Jörðin skalf öll og pipraði af ótta; himin ok skýin grétu, svá at mikill hlutr spilltist jarðar ávaxtarins, en himintúnglin sýndu dauðatákn ber á sér, þá náliga var komit at hinum efstum lífsstundum Páls biskups, en sjórinn brann ok fyrir landinu þá; þar sem hans biskupsdómur stóð yfir sýndist náliga allar höfutskepnur nokkut hrygðarmark á sér sýna frá hans fráfalli“.
Magnús útskýrir í grein sinni að þegar sagt er að himintunglin sýni á sér dauðatákn sé vel hugsanlegt að þar sé vísað til móðu í lofti sem gjarnan er fylgifiskur hraungosa og að sól og tungl hafi af þeim sökum sýnst rauð.
„Mikilvægt hlýtur að teljast að þekkja eðli og hætti eldvirkninnar á Reykjanesi vegna hinnar ört vaxandi byggðra og umsvifa manna á Suðurnesjum,“ skrifaði Magnús í grein sinni árið 1995. „Víst má telja að komi upp hraun á Reykjanesi í náinni framtíð verða mannvirki þar í verulegri hættu og af gjóskugosi við ströndina getur, auk tjóns á mannvirkjum, orðið veruleg röskun á samgöngum í lofti, á landi og í sjó.“