Fundur samninganefnda Eflingar og Reykjavíkurborgar hjá ríkissáttasemjara bar ekki árangur í morgun og því ljóst að rúmlega 1.800 félagsmenn Eflingar sem starfa hjá borginni fara í verkfall á hádegi á morgun. Næsti fundur í kjaradeilunni er boðaður klukkan þrjú á miðvikudaginn. RÚV greinir frá.
Verkfallsaðgerðirnar hefjast klukkan 12:30 á hádegi og standa til miðnættis. Verkfallið mun hafa mest áhrif á leikskóla- og velferðarþjónustu á vegum Reykjavíkurborgar auk sorphirðu, vetrarþjónustu og umhirðu borgarlandsins.
Starfsfólk Eflingar telur um 1.850 af um 9.000 starfsmönnum borgarinnar. Eflingarfólk starfar í fjölbreyttum störfum á 129 starfsstöðum hjá Reykjavíkurborg. Um 1.000 starfa á skóla- og frístundasviði, þar af mikill meirihluti í leikskólunum. Þá starfa um 700 úr Eflingu við velferðarþjónustu borgarinnar.
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segir í samtali við fréttastofu RÚV að enginn árangur hafi verið á fundinum í morgun. „Það kom ekkert fram af hálfu borgarinnar sem að býr til neinn viðræðugrundvöll.“
Þá kom fram á kynningu Eflingar í síðustu viku að framkvæmd launahækkunar næmi um 22 til 52 þúsund krónur á mánuði fyrir laun undir 445 þúsund á mánuði. Launahækkunin yrði framkvæmt í tveimur áföngum. Í fyrsta lagi þann 1. september næstkomandi þar sem 56 prósent af kostnaðaráhrifum myndu koma fram og í öðru lagi þann 1. mars á næsta ári þar sem 100 prósent af kostnaðaráhrifum myndu koma fram.
Áætluð meðaltalshækkun á mann er reiknuð út frá fjölda í hverjum launaflokki, starfshlutfalli og álögum vegna vaktavinnu og yfirvinnu. Gert er ráð fyrir 24 prósent viðbót vegna launakostnaðar og 1.850 starfsmönnum.
Baráttufundur í Iðnó
Efling hefur efnt til baráttufundar í Iðnó. Starfsmenn leggja niður störf, eins og áður segir, klukkan 12:30 og safnast saman í Iðnó þar sem boðið verður upp á dagskrá, kaffiveitingar og skiltagerð. Húsið opnar klukkan 12:30 og hefst dagskrá klukkan 13.00, að því er kemur fram í tilkynningu frá Eflingu sem send var út í dag.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, mun ávarpa gesti, Bubbi Morthens taka lagið og félagsmenn í Eflingu þar á eftir taka til máls.
Að lokun verður kröfuganga en í Iðnó verður opið hús til klukkan 16:00.