Eins og staðan er nú mun Arngrímur Brynjólfsson, skipstjóri á skipinu Heinaste sem Samherji gerði út við strendur Namibíu, verða frjáls ferða sinna síðar í dag. Arngrímur hefur verið í farbanni frá því í nóvember eftir að hann var handtekinn vegna ólöglegra veiða Heinaste í namibískri lögsögu.
Lagt var hald á vegabréf Arngríms þegar hann var handtekinn en samkvæmt heimildum Kjarnans mun hann fá það afhent, að óbreyttu, síðar í dag. Arngrímur, sem er 67 ára, játaði sök í málinu fyrir helgi, en málið snerist um að skipið sem hann stýrði hefði verið við veiðar á hrygningarsvæði undan ströndum Namibíu. Í dag var hann svo dæmdur til að greiða tæpar átta milljónir króna í sekt eða sæta tólf ára fangelsisvist, að því er kom fram í namibískum fjölmiðlum. Heimildir Kjarnans herma að búið sé að fallast á sektargreiðslu og að sektin verði greidd síðar í dag.
Samhliða var kröfu ákæruvaldsins í Namibíu um að fá að leggja hald á Heinaste, sem er risavaxinn verksmiðjutogari sem notaður hefur verið til að veiða hrossamakríl í landhelgi Namibíu, vísað frá dómi.
Skip Samherja að fara og skipverjar skildir eftir í óvissu
Namibískir fjölmiðlar hafa greint frá því undanfarna daga að spillingarlögreglan í Namibíu hafi ráðlagt þarlendum stjórnvöldum að leyfa skipum Samherja ekki að fara frá landinu nema að hún verði látin vita. Þrátt fyrir það hafa tvö af þremur skipum Samherja í landinu, Geysir og Saga, farið þaðan á undanförnum dögum.
Á mánudag var greint frá því að Geysi hefði verið siglt frá Namibíu. Skipið yfirgaf landið á sunnudagskvöld og skildi yfir 100 sjómenn eftir í óvissu. Namibian Sun sagði á mánudag að sjómennirnir hefðu ekki fengið að vita neitt í aðdraganda þess að skipið sigldi á brott utan þess að þær upplýsingar fengust að það myndi snúa til baka þegar það fengi úthlutað nýjum fiskveiðikvóta.
Þetta var í annað sinn á örfáum dögum sem fregnir bárust frá Namibíu þess efnis að skip í eigu Samherja væru að hverfa frá landinu. Á föstudag var greint frá því í miðlinum New Era að skipið Saga, sem siglir undir merkjum dótturfélags Samherja á Kýpur og hefur um árabil veitt hrossamakríl í lögsögu Namibíu, hefði fyrirvaralaust siglt frá landinu. Þá fengu sjómennirnir á Sögu, sem eru um 120 talsins, sms-skilaboð um að þeir þyrfti að sækja eigur sínar um borð án tafar vegna þess að skipið væri á leið til Kanaríeyja í viðgerð. Einn sjómannanna sagði við New Era að vaninn væri sá að um 15 skipverjar færu alltaf með Sögu þegar það færi í viðgerð. Annar sagðist hafa fengið þau svör hjá útgerðinni að skipið myndi ekki snúa aftur næstu sex mánuði.
Ásakanir um sölu Heinaste á hrakvirði
Þriðja skip Samherja í Namibíu er svo Heinaste, sem verið hefur kyrrsettur í landinu. Það er í eigu namibísk félags sem íslenska sjávarútvegsfyrirtækið Samherji á stóran hlut í í gegnum dótturfélag sitt Esju Holding. Aðrir eigendur eignarhaldsfélags Heinaste eru namibísk félög, meðal annars Arctic Nam Investments. Saman eiga namibísku félögin 42 prósent í félaginu en eina eign þess er áðurnefndur togari, Heinaste.
De Sousa sagði enn fremur að Samherji hafi fjarlægt alla namibíska stjórnendur út úr stjórn félagsins sem á Heinaste. Hann grunar að þetta sé gert til þess að auðvelda enn frekar sölu togarans risavaxna á hrakvirði.
Samherji ætlar að draga úr starfsemi sinni í Namibíu
Samherji greindi frá því í yfirlýsingu sem birtist á heimasíðu fyrirtækisins um miðjan janúar að það væri að draga úr starfsemi sinni í Namibíu um þessar mundir með það að markmiði að hætta alfarið rekstri í landinu. Það væri hins vegar ljóst að það myndi taka einhvern tíma.
Síðan þá hafa hlutirnir gerst hratt. Nokkrum dögum eftir að sú tilkynning var send út var greint frá því að namibíska ríkisútgerðin Fishcor, sem stýrt var af mönnum sem sitja í fangelsi fyrir að hafa þegið mútur frá Samherja, hefði ekki átt fyrir launum fyrir desember og janúarmánuð. Til að bregðast við þeirri stöðu var 25 þúsund tonna kvóti af hrossamakríl færður til útgerðarinnar til að úthluta gegn greiðslu. Alls vinna meira en þúsund manns hjá Fischor, sem gerir útgerðina að næsta stærsta atvinnurekanda í hafnarbænum Lüderitz í Namibíu.
Fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, Bernhard Esau, úthlutaði alls um 360 þúsund tonnum af hrossamakrílkvóta til Fishcor frá árinu 2014 og fram á síðasta ár. Hluti þess kvóta var seldur til Samherja og grunur leikur á að íslenski sjávarútvegsrisinn hafi greitt mútur til að fá þann kvóta á lægra verði en eðlilegt hefði verið. Þær mútugreiðslur fóru meðal annars til fyrrverandi stjórnarformanns Fishcor, James Hatuikulipi, áðurnefnds Esau og aðila þeim tengdum.
The Namibian greindi frá því 20. janúar að innanhúsmenn í sjávarútvegi telji að Fishcor ætli sér að nota togarann Heinaste, sem var kyrrsettur af namibískum yfirvöldum í fyrra, til að veiða hinn nýúthlutaða kvóta. Heinaste er að mestu í eigu Samherja. Bennet Kangumu, stjórnarformaður Fishcor, vildi þó ekki staðfesta þetta í samtali við blaðið.