Rekstrartap greiðslumiðlunarfyrirtækisins Valitor var 9,9 milljarðar króna í fyrra. Það var 1,3 milljarðar króna á árinu 2018 og því nemur sameiginlegt rekstrartap þess á tveimur árum 11,2 milljörðum króna.
Bókfært virði félagsins um síðustu áramót var komið niður í 6,5 milljarða króna, en það var 15,8 milljarðar króna ári áður. Virði Valitor, í bókum eigandans Arion banka, lækkaði því um 9,3 milljarða króna á einu ári.
Þetta kemur fram í ársreikningi Arion banka sem birtur var í gær.
Rekstraráhrif af Valitor voru lykilþáttur í slakri afkomu Arion banka í fyrra, en hagnaður bankans var einungis 1,1 milljarður króna á árinu 2019 og arðsemi eiginfjár 0,6 prósent. Til samanburðar var hagnaður bankans 7,7 milljarðar króna árið áður og yfirlýst markmið hans er að arðsemi eigin fjár sé yfir tíu prósent.
Útrás sem kostaði mikið en skilaði litlu
Tíðindin um slaka rekstrarstöðu Valitor koma ekki á óvart. Fyrir hefur legið í nokkurn tíma að fyrirtækið glímdi við rekstrarvanda, sem rekja má til mikils vaxtar og fjárfestingar erlendis án þess að sú útþensla hafi skilað þeim árangri sem vonast var til. Sérstaklega á það við svokallaðar alrásarlausnir, en tekjuvöxtur í þeim hefur verið langt undir væntingum þrátt fyrir miklar fjárfestingu í þeim sem höfðu myndað alls óefnislega eign upp á 4,5 milljarða króna.
Samtals námu neikvæð áhrif Valitor á rekstur Arion banka 8,6 milljörðum króna. Í ársreikningi bankans segir að Valitor sé áfram í söluferlið en að það hafi „tekið lengri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir.“ Valitor hefur verið í formlegu söluferli frá haustinu 2018. Engin tíðindi hafa borist af áhugasömum kaupendum.
Skipulagsbreytingar og uppsagnir
Önnur ástæða fyrir minnkandi tekjur Valitor er sú að einn stærsti viðskiptavinur fyrirtækisins, Stripe, hætti færsluhirðingarviðskiptum sínum við Valitor um mitt ár 2018, líkt og Kjarninn greindi frá í mars 2018 að stæði til.
Vegna alls ofangreinds hefur Arion banki verið að ráðast í kostnaðarsamar aðgerðir til að taka til í Valitor. Bankinn bókfærði meðal annars 600 milljón króna kostnað vegna endurskipulagningar á Valitor á síðasta ársfjórðungi 2019.
Í byrjun janúar var starfsfólki Valitor fækkað um 60. Kjarninn hafði greint frá því í desember 2019 að fækkað hefði verið í stjórnendateymi Valitor úr tíu í fjóra.