Rafmagnstruflanir eru víða um land vegna verðuofsans, sem gengið hefur yfir landið í dag. Áframhald gæti orðið á þörfinni fyrir varúðarráðstafnir vegna veðurofsa, þar sem önnur lægð nálgast nú landið, að því er segir á veðurvefnum Blika.is. „Nú þegar íbúar á sunnanverðu landinu eru farnir að treysta sér út eftir föstudagslægðina er rétt að fara að fjalla um næstu lægð sem dýpkar nú ört og nálgast landið hratt úr suðvestri. Samkvæmt spám staðnæmist lægðin svo suður af landinu. Vindur verður minni á landinu heldur verið hefur í dag. Þó verður hvasst (yfir 20 m/s) á suðausturlandi samfara úrkomu,“ segir á vefnum.
Mikið álag hefur verið hjá öllum fulltrúum almannavarna í landinu, vegna vefurofsans, en víða hafa þakplötur fokið um og valdið tjóni, sem og aðrir lausamunir.
Á Facebook síðu Landsnets segir að rafmagni hafi slegið út á iðngarðinum á Grundartanga, þar sem Elkem og Norðurál eru með starfsemi. „Núna um sexleytið fundu margir fyrir flökti á rafmagnsljósunum en ástæðan er högg sem kom á kerfið þegar við lentum i vandræðum, líklegast vegna seltu, í tengivirkinu okkar á Brennimel sem varð þess valdandi að straumlaust varð hjá Elkem og Norðuráli. Verið er að vinna í að koma kerfinu upp aftur og skoða hvort það þurfi að fara í að skola tengivirki,“ segir í færslu Landsnets.
Á vef RÚV segir að spennuflöktið hjá Landsneti hafi áhrif á allt rafdreifikerfi Veitna. Heitavatndælur víða um borgina slógu út í kjölfarið, segir á vef RÚV. „Efri byggðir borgarinnar finna nú fyrir vatnleysi af þeim sökum. Samkvæmt upplýsingum frá Veitum sló dælunum aftur út þegar annað flökt kom á rafmagnskerfið á sjöunda tímanum. Gera megi ráð fyrir að heita vatnið verði komið aftur á innan stundar nema fleiri slík atvik verði,“ segir jafnframt.