Ótímabundið verkfall starfsmanna Reykjavíkurborgar, sem eru félagsmenn í Eflingu, hefur staðið yfir í viku á miðnætti. Hreinsun og sorphirða á vegum borgarstarfsmanna liggur niðri í verkfallinu en til að byrja með hafði það mest áhrif á starfsemi leikskóla borgarinnar. Um 1.850 manns í Eflingu starfa hjá borginni á um 129 starfsstöðvum.
Reykjavíkurborg hefur varað við langtímaáhrifum verkfalls en Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði þegar það hófst að allt útlit væri fyrir að það yrði langt.
Eftir því sem verkfallið lengist mun það hafa aukin áhrif á sorphirðu í Reykjavík og aðra umhirðu borgarlandsins en það er þegar farið að sýna sig á götum borgarinnar.
Mikilvægt að íbúar skilji ekki eftir poka með blönduðum úrgangi við grenndarstöðvar
Engin sorphirða er jafnframt við heimili í Reykjavík vegna verkfallsins en samkvæmt upplýsingum á vefsíðu borgarinnar er hægt að losa sig við flokkaðan úrgang á grenndarstöðvum víðsvegar um borgina og endurvinnslustöðvum Sorpu.
Þá kemur fram að hægt sé að losa sig við pappír og pappa, plast, gler, textíl og skilagjaldsumbúðir á grenndarstöðvum eins og alltaf.
Mikilvægt sé að íbúar skilji ekki eftir poka með blönduðum úrgangi við stöðvarnar. Af því skapist óþrifnaður og hætta á að hann dreifist um nágrennið.
Á endurvinnslustöðvum Sorpu megi enn fremur losa sig við allan flokkaðan úrgang og blandað heimilissorp „sé ófremdarástand að skapast í sorpgeymslum.“ Greitt sé fyrir blandað sorp umfram 2 rúmmetra á endurvinnslustöðvum.