Kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein hefur verið fundinn sekur um kynferðisbrot í tveimur liðum en kviðdómur við dómstól í New York í Bandaríkjunum komst að þessari niðurstöðu í dag. Það tók kviðdóm fimm daga að komast að niðurstöðu.
Ákæran var í fimm liðum. Hann var sakaður um að hafa brotið gegn tveimur konum, ákærður fyrir tvær nauðganir og önnur kynferðisbrot sem og kynferðislega misneytingu, þ.e. að hafa nýtt sér yfirburðastöðu sína til að koma fram vilja sínum. Hann var sýknaður af alvarlegustu brotunum.
Harvey Weinstein er 67 ára. Hann stofnaði kvikmyndafyrirtækið Miramax ásamt bróður sínum og framleiddi fjölda sjónvarpsþátta og stórmyndir á borð við Pulp Fiction og Shakespeare in Love.
Afhjúpunin hófst með birtingu greina í New York Times og New Yorker haustið 2017. Fram stigu konur, þekktar leikkonur meðal annars, sem greindu frá ósæmilegri hegðun hans og meintum ofbeldisbrotum.
Hver frásögnin á fætur annarri rataði í fjölmiðla. Þær voru flestar á sama veg: Weinstein var vingjarnlegur, ráðagóður og lofaði að hjálpa þeim á framabrautinni. En sú hjálp var ekki ókeypis, beint eða óbeint gaf hann það í skyn að kynferðislegir greiðar væru það gjald sem yrði að greiða. „Þú ert svo æðisleg, ég réð bara ekki við mig,“ á hann að hafa sagt við eina konuna sem varð fyrir barðinu á honum.
Hann gekk mislangt gagnvart þeim. Sumar þeirra saka hann um nauðgun og önnur kynferðisbrot. Aðrar um kynferðislega áreitni af ýmsu tagi.
Fréttirnar mörkuðu stórkostleg tímamót; upphaf metoo-byltingarinnar. Upphafið er rakið til leikkonunnar Alyssu Milano sem kvatti konur sem orðið hefðu fyrir áreitni og ofbeldi að skrifa „me too“ á samfélagsmiðla.
Hægt að lesa ítarlega umfjöllun Kjarnans um málið hér.