Íslenskur karlmaður á fimmtugsaldri hefur verið færður í einangrun á Landspítala eftir að sýni úr honum reyndist jákvætt fyrir nýju kórónuveirunni, COVID-19. Maðurinn er ekki alvarlega veikur en sýnir dæmigerð einkenni COVID-19 sjúkdóms sem eru hósti, hiti og beinverkir.
Sýnataka og greining á veiru- og sýklafræðideild Landspítali staðfesti laust eftir kl. 13:00 í dag að maðurinn væri smitaður af COVID-19 kórónaveiru. Þetta er fyrsta staðfesta tilfellið hér á landi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá embætti landlæknis.
Í ljósi þessa mun ríkislögreglustjóri í samráði við sóttvarnalækni virkja hættustig almannavarna. Er þetta gert bæði vegna þess að ekkert lát er á hópsýkingu af völdum veirunnar ytra, þá sérstaklega í Evrópu, og að fyrsta tilfellið hefur nú verið staðfest hér á landi.
Maðurinn sem greindist var nýverið staddur á Norður-Ítalíu utan skilgreinds hættusvæðis fyrir veiruna. Unnið er að rakningu smitleiða en markmið þeirra vinnu er að varpa ljósi hverjir gætu verið útsettir vegna þessa staðfesta smits.
Yfir 82 þúsund manns hafa sýkst af nýju veirunni frá því að hún uppgötvaðist fyrst í desember, langflestir í í Kína. Tæplega 3.000 hafa látist eða 3,4% sýktra. Samkvæmt John Hopkins hafa um 33.000 manns náð sér eftir veikindin.
Nýja veiran hefur greinst í um fimmtíu löndum og síðustu daga í grannríkjum Íslands; Svíþjóð, Noregi og Danmörku.
Hvert á að hringja?
Einstaklingar sem finna fyrir veikindum og hafa mögulega verið útsettir fyrir smiti vegna t.d. ferðalaga eru hvattir til að hringja í 1700 (fyrir erlend símanúmer: +354 544-4113) til að fá leiðbeiningar. Þeir sem hafa verið í nánu samneyti við einstaklinga með staðfesta eða líklega sýkingu verða settir í sóttkví og hið sama á við um þá sem ferðast hafa á undanförnum dögum til skilgreindra áhættusvæða.
Ítarlegar upplýsingar um hina nýju kórónaveiru er að finna á landlaeknir.is og jafnframt upplýsingar um skilgreind áhættusvæði.