Alþjóða heilbrigðisstofnunin WHO segir að nýja kórónuveiran hafi ýtt heimsbyggðinni inn á „áður óþekktar slóðir“. Læknar hafi aldrei fyrr séð öndunarfærasýkil breiðast út í samfélögum með sama hætti.
Læknirinn Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO segir að þrátt fyrir að um 90 þúsund hafi nú smitast víða um heim og yfir 3.000 látist sé enn hægt að ná tökum á vandanum.
Veiran sem veldur sýkingu sem kölluð er Covid-19 uppgötvaðist í Kína í desember. Fljótlega var ljóst að hún barst manna á milli. Fyrsta dauðsfallið er talið hafa verið í byrjun janúar. Hún breiddist fyrst út í borginni Wuhan og svo um héraðið Hubei. Síðan þá hefur hún borist og verið í greind í 62 löndum, m.a. á Íslandi þar sem sex tilfelli hafa nú verið staðfest. Margfallt fleiri smitast nú dag hvern utan meginlands Kína en innan þess.
Ghebreyesus segir að útbreiðsla sjúkdómsins á heimsvísu væri ekki „einstefna“ og hægt væri að berjast gegn honum ef ríki heims brygðust hratt og örugglega við. Þar skiptu aðgerðir er varða sóttkví og einangrun mestu. „Við höfum ekkert annað val en að bregðast við núna.“ Hann ráðlagði stjórnvöldum í hverju landi fyrir sig að skoða sín viðbrögð vandlega, ekki væri til ein uppskrift af aðgerðum sem hentaði öllum. Hann sagði veiruna „einstaka og hafa einstaka eiginleika“.
Það land utan Kína sem einna verst hefur orðið úti er Ítalía. Í dag, mánudag, hafði tala látinna vegna sjúkdómsins hækkað í 52 úr 34 á einum sólarhring. Þar hafa tæplega 2.000 manns greinst með veiruna.
Ghebreyesus bendir á að átta lönd hafi ekki tilkynnt um ný smit í tvær vikur og virðast því hafa náð tökum á útbreiðslunni.
Alþjóða heilbrigðisstofnunin hefur ekki lýst yfir heimsfaraldri vegna veirunnar. Það er þó til sífelldrar endurskoðunar.
Um 90% allra tilfella hafa greinst í Kína. Af þeim 8.800 tilfellum sem greinst hafa utan þess eru 81% í fjórum löndum: Íran, Suður-Kóreu, Ítalíu og Japan.
Óttast er að efnahagsleg áhrif útbreiðslu veirunnar verði mikil, jafnvel sambærileg við það sem gerðist árið 2009 er mjög hægði á hagvexti í heiminum. Lækkanir hafa verið á hlutabréfamörkuðum sem virðast í nokkurs konar rússíbana þessa dagana.
Margt er enn á huldu um hvernig veiran hagar sér. Dæmi eru talin um að fólk myndi ekki mótefni og geti sýkst aftur eftir að hafa fengið bata. Slíkt á þó eftir að rannsaka betur.
Annað sem vekur furðu – og áhyggjur – er hversu fá tilfelli hafa greinst í Afríku, heimsálfu sem telur um einn og hálfan milljarð íbúa. Í flestum löndunum er heilbrigðisþjónusta mun verri en þekkist til dæmis á Vesturlöndum. Vísindamenn klóra sér í hausnum yfir þessu og velta fyrir sér hvort það sé einfaldlega heppni að fleiri hafi ekki sýkst þar. Í gær höfðu aðeins þrjú tilvik verið staðfest í Afríku; í Egyptalandi, Alsír og Nígeríu. Í dag voru tilfelli greind í Senegal og Túnis. Enginn dauðsföll hafa verið staðfest.
Er veiran hóf að breiðast út í byrjun árs var varað við því að hún gæti auðveldlega orðið að faraldri í Afríku því mörg lönd álfunnar eru í miklu viðskiptasambandi við Kína og þar starfa milljónir Kínverjar á hverjum tíma.
Ghebreyesus hefur sagt að heilbrigðisyfirvöld hafi haft einna mestar áhyggjur af faraldri þar, ekki síst vegna veikra innviða og lélegrar heilbrigðisþjónustu.
„Enginn veit“ af hverju veiran hefur lítið greinst í Afríku til þessa, segir læknirinn Thumbi Ndungu sem starfar við heilbrigðisvísindastofnun í Suður-Afríku. „Kannski er það einfaldlega af því að ferðalög milli Afríku og Kína eru ekki það mikil.“
Vön því að fást við faraldra
Ethiopian Airlines, stærsta flugfélag Afríku, hélt þó áfram að fljúga til Kína eftir að veiran var þar orðin útbreidd. Þá er augljós hætta á því að fólk sem heimsæki lönd álfunnar, m.a. á ferðalagi, beri veiruna þangað með sér.
Einhverjir vísindamenn hafa velt fyrir sér hvort að vistkerfi Afríku, jafnvel loftslagið, hafi eitthvað með þetta að gera. „Kannski breiðist veiran ekki út í vistkerfum Afríku, við vitum það ekki,“ segir læknirinn Yazdan Yazdanpanah, sem fer fyrir smitsjúkdómadeildinni á Bichat-sjúkrahúsinu í París.
Aðrir vísindamenn hafa hafnað þessari kenningu og segja ekkert benda til þess að veiran kjósi hýsla sína eftir loftslagi, vistkerfum eða erfðafræðilegum þáttum.
Sá sem greindist fyrstur með veiruna í Nígeríu var Ítali sem þar starfaði. Hann hafði komið til landsins frá Mílanó 24. febrúar og þá einkennalaus. Hann var settur í einangrun fljótlega eftir komuna til Nígeríu og haft upp á öllum þeim sem hann hafði átt í samskiptum við.
Sérfræðingar í smitvörnum segja það að eitt fyrsta tilfellið í Afríku hafi greinst í Nígeríu séu þegar öllu er á botninn hvolft góðar fréttir. Nígería virðist vera vel í stakk búin til að bregðast við og hefta útbreiðsluna.
Þá hafa þeir bent á að mörg Afríkulönd hafi góða og mikla þekkingu á því hvernig bregðast skuli við smitfararaldri. Nígería sé í þeim hópi.