Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur farið fram á við ríkissáttasemjara að haldinn verði samningafundur í kjaradeilu félagsins við Reykjavíkurborg. Er þess óskað að fundurinn verði haldinn eigi síðar en í dag, eins og það er orðað í fréttatilkynningu frá Eflingu. Var óskinni komið á framfæri símleiðis við Ástráð Haraldsson aðstoðarríkissáttasemjara í morgun.
Í tilkynningunni segir að með þessu vilji Efling „reyna til þrautar að þokast nær samkomulagi í deilunni. Samninganefnd Eflingar mun krefjast efnda á loforðum borgarstjóra um grunnlaunahækkanir en heildstæð útfærsla á þeim hefur aldrei verið lögð fram við samningaborðið. Einnig mun nefndin krefjast efnda á loforðum borgarstjórnarmeirihlutans um leiðréttingu á launum kvennastétta.“
Efling hefur áður lagt fram eftirfarandi tillögur til lausnar og málamiðlana í deilunni:
Efling kynnti á samningafundum 16. og 31. janúar tvær ólíkar útgáfur af tilboði um launaleiðréttingu byggð á fyrirmynd frá 2005 í tíð Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur borgarstjóra.
Efling kynnti á samningafundi 18. febrúar tilboð um samsetta leið til launaleiðréttingar byggð á annars vegar jöfnun launabila í töflu að tillögu Reykjavíkurborgar og hins vegar á álags- og uppbótargreiðslum.
Efling kynnti á samningafundi 27. febrúar tilboð um samsetta leið til launaleiðréttingar byggð á annars vegar grunnlaunahækkunum sem Dagur B. Eggertsson lýsti í Kastljóssviðtali og hins vegar á blandaðri leið uppbóta vegna eldri sérgreiðslna og starfstengdu jöfnunarálagi.
Efling bauð borgarstjóra þann 3. mars að ganga til samkomulags um að hann staðfesti „Kastljósstilboðið“ gegn því að verkfalli verði frestað í tvo sólarhringa.
Reykjavíkurborg hefur hafnað öllum ofangreindum tillögum Eflingar.
Í tilkynningunni er haft eftir Sólveigu Önnu að samninganefndin Eflingar muni nú „í enn eitt skiptið gera tilraun til þess að fá fram samkomulag um lausnir á því verkefni að leiðrétta lægstu laun Eflingarfélaga hjá borginni sem og kjör sögulega vanmetinna kvennastétta.“
Sólveig Anna segir að borgin hafi lýst sig viljuga til að gera þetta „og Efling hefur lagt fram fjölda leiða að þessu marki, sem hafa verið vandaðar, heildstæðar og nákvæmlega útfærðar. Borgin hefur verið á allt annarri vegferð, en ég vona innilega að nú verði breyting á.“
Uppfært: Samkvæmt frétt RÚV hefur ríkissáttasemjari boðað deiluaðila til fundar klukkan 16 í dag.