Virkni í jarðskjálftahrinu sem verið hefur í gangi nálægt Reykjanestá frá því um miðjan febrúar jókst aftur seinnipartinn í gær. Fimm skjálftar mældust yfir 3 stig og sá stærsti, sem varð rétt fyrir kl. 17 , var 3,4 stig.
Skjálftarnir eru staðsettir um 1 kílómetra norðan við Sýrfell. Hátt í 300 skjálftar mældust þar í gær en rólegra hefur verið á þessum slóðum í dag. Árið 2013 var hrina á svipuðu svæði en þá voru fleiri stærri skjálftar og sá stærsti 5,2 að stærð, samkvæmt upplýsingum Veðurstofu Íslands.
Veðurstofan varar enn við hellaskoðun við Eldvörpin á Reykjanesskaganum. Gasmælingar þar að undanförnu hafa sýnt lífshættuleg gildi á koltvísýringi og súrefnisskort í helli við bílastæði þaðan sem eru vinsælar gönguleiðir.
Dregið hefur verulega úr jarðskjálftavirkni við Þorbjörn að undanförnu. Ekkert landris mælist lengur og líklegasta skýringin sé að kvikuinnflæði sé lokið í bili. Jarðskjálftahrina hófst þar í lok janúar og um mánuði síðar hafði land þar risið um 5 sentímetra. Líklegasta skýringin er talin kvikusöfnun á nokkurra kílómetra dýpi.
Óvissustig almannavarna er enn í gildi.
Gosið á landi og í sjó
Reykjanesskaginn er yngsti hluti Íslands. Hann er mjög eldbrunninn og dregur nafn sitt af allmiklu gufu- og leirhverasvæði, eins og segir í ítarlegri grein Magnúsar Á. Sigurgeirssonar jarðfræðings í Náttúrufræðingnum frá árinu 1995.
Í samantekt Magnúsar og fleiri í Íslensku eldfjallavefsjánni kemur fram að eldstöðvakerfi Reykjaness hafi verið í meðallagi virkt. Norðurhluti þess renni inn í kerfi Svartsengis en syðstu níu kílómetrarnir séu undir sjávarmáli. Á nútíma (síðustu tíu þúsund árin eða svo) hafa þar orðið fleiri en fimmtán gos. Eldgos á landi hafa einkennst af hraunflæði en í sjó hafa orðið „surtseysk sprengigos“ eins og það er orðað.
Frá landnámi hefur þrisvar sinnum gosið á Reykjanesi, síðast á árunum 1211-1240 og eru þeir atburðir kallaðir Reykjaneseldar. Á því tímabili gaus nokkrum sinnum, þar af urðu þrjú gos í eldstöðvakerfi sem kennt er við Svartsengi. Eldgosin voru hraungos á 1-10 kílómetra löngum gossprungum. Gosvirkni á Reykjanesi-Svartsengi einkennist af goslotum eða eldum sem geta varað í áratugi og má búast við goslotu á um 1100 ára fresti.