Það virðist sammannlegt að snerta stöðugt á sér andlitið með fingrunum. Við nuddum augun, klórum okkur í nefinu, styðjum hönd undir kinn og stöngum jafnvel úr tönnunum með nöglunum. En þegar við snertum á okkur andlitið berum við líka alls konar sýkla að því og þaðan eiga þeir greiða leið inn í líkamann.
Nú þegar COVID-19 geisar og tugir einstaklinga hafa greinst með veiruna sem veldur sýkingunni á Íslandi hafa heilbrigðisyfirvöld ítrekað bent á að besta og einfaldasta forvörnin gegn smiti sé að þvo oft og vel á sér hendurnar með sápu. Bent hefur verið á að til að sóttvarnarárangur náist þurfi að þvo hendurnar í 20-30 sekúndur í hvert sinn eða álíka lengi og það tekur að raula afmælissönginn fyrir munni sér.
Einnig hefur verið bent á að hnerra og hósta í pappír eða olnbogabót því bakteríur og veirur smitast með úða. Þá er okkur ráðlagt að sleppa kossaflensi, knúsi og því að heilsa fólki með handabandi.
Og svo er okkur bent á að hætta að snerta á okkur andlitið í tíma og ótíma. Jafnvel þó að við höldum að við séum með hreinar hendur. Við gerum þetta öll, það er ljóst, og rannsóknir sýna að fólk snertir andlit sitt að meðaltali 23 sinnum á klukkutíma. Að sama skapi þá snertum við oft og ítrekað hluti sem sýklar geta verið á, s.s. hurðarhúna, lyftuhnappa, handrið og fleira.
Enn er óljóst hversu lengi kórónuveiran sem veldur COVID-19 getur lifað á yfirborði hluta. Ef hún hagar sér eins og aðrar þekktar kórónuveirur þá gæti hún lifað þar allt upp í níu daga við kjöraðstæður.
En hvernig í ósköpunum eigum við að hætta að snerta andlitið sem hjá okkur flestum er sterkur og algjörlega ómeðvitaður ávani?
Hér að neðan eru fjögur ágæt ráð frá læknum sem New York Times tók saman.
Vertu meðvitaður
Hversu oft snertir þú á þér andlitið, af hvaða tilefni og af hverju? Hverjar eru kveikjurnar sem verða til þess að berð fingurna að andlitinu? Það hjálpar að vera meðvitaður um ávanann. Ef þú nuddar augun þegar þau eru þurr, finndu leið til að slá á þurrkinn.
Ef þú notar augnlinsur þarf sérstaklega að gæta vel að hreinlæti. Sumir læknar ráðleggja fólki að nota frekar gleraugun nú þegar hætta á smiti er mikil.
Hafðu pakka af pappírsþurrkum við hendina
Þegar þú finnur þörf á að klóra þér, nudda augun eða laga gleraugun á nefinu, notaðu pappír svo fingurnir snerti andlitið ekki beint. Ef þú þarft að hnerra, gríptu pappírsþurrku en ef hún er ekki nálæg skaltu hnerra í olnbogabótina.
Haltu höndunum uppteknum
Með því að hafa lítinn plast- eða gúmmíbolta við höndina og handleika hann getur dregið úr þeim skiptum sem þú freistast til að bera hendurnar að andlitinu. Aðra hluti er auðvitað hægt að nota í sama tilgangi. Einnig getur þú reynt að venja þig á að flétta fingrum beggja handa saman í kjöltu þinni.
Slakaðu á
„Mitt helsta ráð til fólks er að reyna að minnka streitu almennt í stað þess að hafa stöðugar áhyggjur af því sem það er að snerta,“ hefur New York Times eftir Stew Shankman, prófessor í atferlisfræði við Northwestern-háskóla. „Streita hefur áhrif á ónæmiskerfið og því streittari sem þú ert því meira dregur þú úr hæfni líkamans til að berjast gegn sýkingum.“
Hann segir það áhrifaríkt að vera í núinu, hugleiða og einbeita sér að önduninni. Svo lengi sem fólk er með hreinar hendur sé það ekki stórkostlega hættulegt að snerta á sér andlitið. „Þetta er náttúruleg hegðun. Ekki heimsendir.“