Sextíu manns hafa nú greinst með nýju kórónuveiruna hér á landi. Öll smitin má rekja til skíðasvæða í Ölpunum og því hefur verið ákveðið að útvíkka áhættusvæðið og hvetja fólk til að fara þangað ekki að nauðsynjalausu. Mögulega eru um þúsund Íslendingar á þessum skíðasvæðum á hverjum tíma.
Ljóst er að 27 þeirra sem greinst hafa með veiruna hér á landi smituðust á Norður-Ítalíu og 22 á skíðasvæði í Austurríki. Einn smitaðist í Asíu og tíu innanlandssmit hafa greinst.
Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir sagði á blaðamannafundi almannavarna, landlæknis og utanríkisráðuneytisins í dag að oft snemmt væri að fullyrða hvaða árangri þær aðgerðir sem gripið hefur verið til hér á landi hafi skilað. Hins vegar væri ljóst að þeir einstaklingar sem hingað hefðu komið smitaðir hefðu allir fundist og einnig þau smit sem orðið hefðu vegna samneytis við það fólk.
Smit hjá öðrum hafa ekki fundist. Því má að sögn Þórólfs segja að þær aðgerðir sem þegar hefur verið beitt virðast hafa borið árangur enn sem komið er.
Öll smitin má rekja til skíðasvæða í Ölpunum og sömu sögu er að segja frá smitum sem greinst hafa á hinum Norðurlöndunum. Á þeim grunni er talið nauðsynlegt að útvíkka áhættusvæðið svo það nái til allra skíðasvæða í Ölpunum. Eru Íslendingar hvattir til að fara ekki á þessi svæði að nauðsynjalausu, segir Þórólfur.
Landsvæðin sem nú bætast við eru eftirfarandi:
Austurríki: Vorarlberg, Tirol, Salzburg og Kärnten.
Sviss: Valais, Bernese Oberland, Ticino og Graubünden.
Þýskaland: Skíðasvæði í Suður Bæjaralandi.
Frakkland: Provence-Alpes-Côte d'Azur og Auvergne-Rhône-Alpes.
Slóvenía: Öll skíðasvæði.
Þessi svæði bætast við áðurnefnd áhættusvæði sem eru Kína, Suður-Kórea, Íran og Norður-Ítalía auk Ischgl í Austurríki.
Allir frá þessum svæðum þurfa í sóttkví
Íslendingar sem hafa dvalið á þessum svæðum frá 29. febrúar
eiga að fara í 14 daga sóttkví frá því að þeir yfirgáfu viðkomandi svæði. Þeir sem hafa verið á þessum svæðum og finna til einkenna
eru hvattir til að hafa samband við síma 1700, tilgreina að þeir hafi verið á
hættusvæði og fá ráðgjöf um næstu skref.
Ljóst er að fjöldi Íslendinga er á þessum svæðum nú um stundir, mögulega um þúsund manns. Eru þeir hvattir til að skrá sig i grunn borgaraþjónustunnar sem nálgast má á heimasíðu utanríkisráðuneytisins. Allir eiga að fara í sóttkví, jafnvel þó að margar dagar séu liðnir frá heimkomu, því jafnvel örfáir dagar í sóttkví geta skipt sköpum fyrir heilsu annarra, segir í upplýsingum almannavarna.
Þórólfur sagði spurningar hafa vaknað um hvort að mikið samfélagssmit sé í gangi og á þeim grunni sé hafið samstarf við Íslenska erfðagreiningu og veirufræðideild Landspítalans. Fólk verði fengið til að koma í sýnatöku til að fá góða mynd af því hvort að veiran sé algengari í samfélaginu en vitað er núna. Að sögn Þórólfs mun þessi skimun vonandi hefjast í vikunni.
Í kjölfarið ætti að fást góð mynd af því til hvaða aðgerða beri að grípa næst.
Alma Möller landlæknir sagði að hröð fjölgun smita í norðanveðri Evrópu væri áhyggjuefni. Hún sagði heilbrigðisyfirvöld hér á landi því búa sig undir þá sviðsmynd að smitum fjölgi og að fólk komi til með að veikjast meira. Enginn þeirra sem nú hefur greinst með veiruna er með alvarleg einkenni og sumir eru nær einkennalausir.
Verðum að vera yfirveguð
„Við megum ekki láta veiruna yfirtaka allt,“ sagði Alma. „Við verðum að vera yfirveguð,“ og leita eftir að veita alla nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Allir vilji sameinast um að slá skjaldborg um viðkvæmustu hópana, þá sem eru veikir fyrir og aldraðir. „Við verðum að passa að það verði ekki rof í heilbrigðisþjónustu þessa fólks.“
Brýndi hún fyrir fólki að afpanta ekki tíma sem það á bókaða hjá læknum nema að höfðu samráði við sína lækna.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, sagði að enn væri verið að skoða hvenær gripið verði til samkomubanns og benti á að slíkum takmörkunum þurfi að beita á réttum tíma, með réttum hætti og á réttum stöðum. Ekki sé t.d. víst að það muni ná til alls landsins. Verið sé að rýna í reynslu annarra og taka skynsamlegustu ákvörðunina byggða á vísindalegum grunni.
Þórólfur sagði að leitað væri ráða hjá alþjóðastofnunum í þessum efnum. Ítrekaði hann að mestu máli skiptu þær aðgerðir sem fólk almennt gripi til til að koma í veg fyrir samfélagssmit. Það skilaði miklu meiri árangri en boð og bönn.