Svo virðist sem hægt hafi á útbreiðslu nýju kórónuveirunnar sem veldur COVID-19 í bæði Kína og Suður-Kóreu. Þetta vekur vonir um að hámarki faraldursins sé náð í þessum heimshluta. Veiran er upprunninn í miðhluta Kína og fyrstu tilfellin greindust þar í desember. Þaðan hefur hún dreifst heimshorna á milli og var ástandið einna verst í Suður-Kóreu við upphaf faraldursins.
Á sama tíma og dregið hefur úr fjölda smitaðra dag frá degi í þessum löndum eru önnur að sjá mikla fjölgun tilfella, m.a. Íran og Ítalía.
Til ýmissa varúðarráðstafana hefur verið gripið vegna þessa. Írönsk stjórnvöld hafa til dæmis sleppt um 70 þúsund föngum úr fangelsum. 237 dauðsföll af völdum veirusýkingarinnar eru nú staðfest í Íran.
Á Ítalíu eru um 16 milljónir manna í sóttkví. Staðfest er að 463 hafi látist vegna veirunnar þar í landi af þeim tæplega 9.200 sem hafa smitast. Um 7.400 hafa smitast í Suður-Kóreu en staðfest dauðsföll eru þó mun færri eða 53. Langflest dauðsföll hafa orðið í Kína eða rúmlega 3.000.
Heilbrigðisráðherra Suður-Kóreu segist nú vona að hámarki faraldursins þar í landi sé náð. Vísbending þar um sé sú að síðustu daga hafi færri tilfelli greinst en vikurnar þar á undan. Hann hvetur lönd þar sem veiran er nú að greinast í til að grípa til ráðstafana strax.
Stjórnvöld í Suður-Kóreu lögðu áherslu á það um leið og veiran kom til landsins að almenningur ætti greiðan aðgang að greiningarprófum og að þau væru ókeypis. Um 15 þúsund sýni voru tekin á hverjum degi og samanlagt hafa tæplega 200 þúsund sýni verið tekin.
Tvö smit kórónaveirunnar greindust til viðbótar hér á landi í morgun. Báðir þeir einstaklingar komu með flugi til landsins frá Verona á laugardag.
Því hafa fimm manns úr því flugi greinst með veiruna. Alls eru greind smit hérlendis orðin 60 talsins - 50 smit hjá fólki sem kom erlendis frá og 10 sem smitast hafa innanlands.
Hvaða áhrif mun vorið hafa?
Eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti skrifaði á Twitter í febrúar að vel myndi takast að hefta útbreiðsluna, sérstaklega í ljósi þess að veðrið færi hlýnandi, fóru margir að velta fyrir sér hvort að vorið myndi færa okkur góð tíðindi í þessum málum.
Vísindamenn segjast ekki með fullu geta sagt til um hvort að vorblíða muni hafa áhrif á útbreiðsluna. Í grein Telegraph kemur fram að flestir eigi von á því að faraldurinn muni ná hámarki í apríl og í kjölfarið fari tilfellum almennt að fækka.
Enn er margt á huldu um hegðun nýju veirunnar en hagi hún sér eins og skyldar veirur gæti hún látið undan í hlýrra veðri. Þannig hegða árstíðarbundnar inflúensuveirur sér gjarnan. Flensutímabilið byrjar á norðurhveli jarðar í október og nær hámarki í desember til febrúar. Stundum geta þó tilfelli verið að greinast allt fram í maí. Flensuveirur kunna vel við sig í köldu veðri því þær eru hjúpaðar fitu sem brotnar niður í hita.
Margir vísindamenn segja hins vegar of snemmt að spá fyrir um hvernig nýja veiran mun haga sér þegar tekur að hlýna. Sumir segja einhverjar vísbendingar felast í því að hún virðist eiga erfitt uppdráttar í Afríku þar sem fá tilfelli hafa greinst enn sem komið er.
Í grein National Geographic er haft eftir vísindamönnum sem eru að rannsaka veiruna að of snemmt sé að spá fyrir um áhrif hækkandi hita á hana.
„Ég vona að hún muni bregðast við árstíðarbreytingum en það er erfitt að segja til um það,“ segir Stuart Weston sem starfar við Háskólann í Maryland.
Um helgina hafði veiran verið greind í 88 löndum og talið er að hún muni breiðast út til fleiri landa á næstu dögum og vikum.
Í dag hefur veiran greinst hjá 111.354. 3.892 hafa dáið af völdum hennar. Rúmlega 62 þúsund hafa náð fullum bata.