Engin sérstök tíðindi, umfram allt það sem fram hefur komið í dag, voru boðuð á starfsmannafundi hjá Icelandair sem fór fram kl. 13 í dag í gegnum fjarfundabúnað fyrirtækisins.
Í morgun biðlaði flugfélagið til starfsmanna sinna um að taka sér launalaust leyfi næstu mánuði, hefðu þeir tök á, en einnig var fólk spurt hvort það gæti hugsað sér að lækka starfshlutfall sitt eða taka fæðingarorlof. Fólk var beðið um að láta yfirmenn sína vita, gæti það hugsað sér að leggjast á árarnar með þessum hætti, fyrir hádegi á morgun, föstudag.
Spurningum starfsmanna rigndi yfir stjórnendur félagsins á fundinum og samkvæmt heimildum Kjarnans var töluvert spurt um uppsagnir, sem Bogi Nils Bogason forstjóri hefur sagt óhjákvæmilegt að ráðast þurfi í. Ekkert var þó gefið upp um slíkar aðgerðir á fundinum, en ljóst er að starfsfólk er hugsi yfir sinni stöðu, sem eðlilegt er.
Markaðsvirði flugfélagsins hefur hrapað um hátt í 20% það sem af er degi og ekki farið lægra frá því í janúar árið 2011. Allra leiða er nú leitað til þess að lækka kostnað og bregðast við tekjumissinum sem öruggt er að flugfélagið verði fyrir við þær fordæmalausu aðstæður sem nú eru uppi í heiminum öllum, ekki síst eftir að ferðabann var einhliða sett á af hálfu stjórnvalda í Bandaríkjunum.
Hafa ekki óskað eftir hjálp frá stjórnvöldum
Bogi Nils fundaði með ríkisstjórninni í stjórnarráðinu í hádeginu. Hann ræddi við fjölmiðla eftir þann fund og sagði við mbl.is að ekki hefði verið óskað eftir því að stjórnvöld réttu fyrirtækinu sérstaka hjálparhönd að svo stöddu. Þá er haft eftir forstjóranum á Vísi að ekki hafi verið rætt að afskrá félagið tímabundið af hlutabréfamarkaði.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í Bítinu á Bylgjunni í morgun að til greina kæmi að veita Icelandair hjálparhönd á þessum erfiðum tímum, upp að því marki sem raunhæft væri. Ráðherra sagði ótímabært að úttala sig um það hvernig slík hjálp gæti verið veitt.