Bandaríski leikarinn Tom Hanks og eiginkona hans, leikkonan Rita Wilson, hafa greinst með nýju kórónuveiruna.
Í yfirlýsingu sem Hanks birtir á Instagram í nótt kemur fram að þau hjónin hafi verið á ferðalagi í Ástralíu er þau fóru að sýna einkenni flensu og sýni voru tekin. Í kjölfarið voru þau greind með veiruna.
„Jæja þá, hvað skal gera næst?“ skrifar Hanks og að heilbrigðisyfirvöld hafi reglur sem þurfi að fylgja í svona tilfellum. Nú fari hann og eiginkonan í einangrun svo lengi sem þörf krefur. „Það er ekki hægt að taka þetta öðru vísi en einn dag í einu, er það?“
Donald Trump Bandaríkjaforseti ávarpaði þjóð sína í sjónvarpinu í kvöld og tilkynnti að ferðabann milli Evrópu og Bandaríkjanna yrði komið á frá og með næsta föstudegi. Það muni standa í mánuð.
Í kvöld var einnig tilkynnt að öllum leikjum í NBA-deildinni í körfubolta yrði aflýst það sem eftir er leiktíðar þar sem leikmaður hefði greinst með COVID-19.