Þúsundir Íslendinga bókuðu tíma í skimun eftir COVID-19 sjúkdómnum hjá Íslenskri erfðagreiningu eftir að opnað var fyrir bókanir í gærkvöldi. Fljótlega þurfti að bæta við tímum vegna mikillar eftirspurnar.
Skimanir hófust í Turninum, Smáratorgi 3 í Kópavogi klukkan 10 æu dag. Fólki sem á bókaðan tíma er bent á að nota inngang á fyrstu hæð en þar verður fyrir starfsmaður sem tekur á móti þeim.
Nýja kórónaveiran sem veldur sjúkdóminum COVID-19 dreifist nú hratt um heiminn og hefur sett venjubundið líf úr skorðum. Mikill meirihluti þeirra sem smitast verða ekki alvarlega veikir. Flestir sem koma í skimun hafa aldrei fundið fyrir einkennum og eru því líklega ekki smitandi. Það sama á við alla starfsmenn í húsinu, hvort sem þeir starfa við skimanir eða ekki. Það er því ekki meiri hætta á ferðum í húsinu en annars staðar í borginni þar sem fólk kemur saman, segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.
„Um leið og þessi mikla þátttaka er ánægjuleg er ljóst að hún veldur álagi á það starfsfólk sem fyrir er í húsinu sem tengist ekki Þjónustumiðstöð rannsóknaverkefna þar sem skimanir fara fram,“ segir í fréttatilkynningu frá Íslenskri erfðagreiningu. „Það er einkum vegna aukinnar umferðar um húsið þessa dagana. Fólk á þakklæti skilið fyrir skilning og þolinmæði en baráttan við COVID-19 er samfélagslegt verkefni og á ábyrgð okkar allra að vel takist til.“
Hægt er að panta skimun á vefsíðunni: bokun.rannsokn.is