Ef þú ert þegar staddur erlendis á ferðalagi brýnir landlæknir fyrir þér að fara eftir ákveðnum leiðbeiningumsem finna má hér að neðan. Sérstök athygli er vakin á því að sóttvarnalæknir mælir gegn ónauðsynlegum ferðum á svæði með mikla smitáhættu. Ef þú hefur verið á slíkum svæðum, skaltu vera heima í sóttkví í 14 daga eftir heimkomu.
Ertu staddur erlendis?
- Fylgstu vel með ferða- og samkomutakmörkunum á þeim svæðum sem þú heimsækir og aðlagaðu ferðaáætlanir eins og þurfa þykir.
- Þú getur skráð ferðir þínar hjá utanríkisráðuneytinu. Upplýsingar í grunninum verða aðeins notaðar í öryggisskyni og til að hægt sé að ná í þig ef þörf krefur.
- Ferðamálastofa hefur tekið saman helstu upplýsingar um réttindi fólks vegna ferðalaga. Einnig er gott að þú hafir samband við tryggingafélagið þitt vegna skilmála ferðatrygginga.
- Gættu vel að almennu hreinlæti, sérstaklega handþvotti með sápu og vatni.
- Forðastu umgengni við villt dýr og dýr á mörkuðum meðan á ferðalagi stendur.
- Smithætta á hinum ýmsu svæðum getur breyst hratt. Fylgstu reglulega með upplýsingum frá landlækni um svæði með smitáhættu. Í neyð getur þú haft samband við neyðarnúmer borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins, 545 0112. Þar færðu upplýsingar allan sólarhringinn.
Skemmtiferðaskip og önnur sem koma til landsins
Öll skip sem koma til landsins erlendis frá þurfa nú að veita Landhelgisgæslunni sérstaka heilbrigðisyfirlýsingu vegna COVID-19 áður en þau fá heimild til að koma til hafnar. Vegna núverandi aðstæðna ber skipstjórum og skipslæknum, ef þeir eru um borð, að fylla út sérstakt eyðublað sem getur gefið upplýsingar um COVID-19 smit. Skipum verður ekki hleypt til hafnar nema eyðublaðið berist Landhelgisgæslunni. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar sendir eyðublaðið til skipanna.
Ef þú starfar í ferðaþjónustu þar sem smit kemur upp þarf ákveðið ferli að fara í gang samkvæmt leiðbeiningum.
Ertu á leið til útlanda?
Á heimasíðu Ferðamálastofu er að finna ítarlegar leiðbeiningar fyrir fólk sem hefur bókað ferðir, hótel, flug eða gistingu og hver réttindi þeirra eru.
Ef þú hefur keypt pakkaferð áttu alltaf rétt á að afpanta pakkaferð, hvenær sem er áður en ferð er farin, segir í samantektinni. Seljandi pakkaferðarinnar á þó rétt á að halda eftir þóknun eða staðfestingargjaldi í samræmi við skilmála ferðarinnar. Á því er undantekning ef óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður eru á ferðastað eða í næsta nágrenni.
Óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður geta t.d. verið útbreiðsla farsótta eða sjúkdóma sem hafa afgerandi áhrif á ferðalög til viðkomandi staða. Í þeim tilvikum á ferðamaður rétt á að fá fulla endurgreiðslu. Þessar aðstæður þarf að meta í hverju tilviki út frá aðstæðum á ferðastað. Ferðaskrifstofu ber að endurgreiða verð ferðarinnar innan 14 daga frá afpöntun. Leiða má að því líkur að ef heilbrigðisyfirvöld vara almennt við ferðalögum til viðkomandi staðar eða ef ferðabann er í gildi, sé um að ræða óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður.
Ef þú hefur keypt pakkaferð og ferðaskrifstofan ákveður að aflýsa pakkaferðinni þá áttu rétt á fullri endurgreiðslu. Ferðaskrifstofunni ber að endurgreiða verð ferðarinnar innan 14 daga frá aflýsingu ferðarinnar.
Neytendastofa hefur eftirlit með ákvæðum pakkaferðalaga sem snúa að afpöntun og aflýsingu pakkaferðar. Nánari upplýsingar veitir Neytendastofa í síma 510-1100. Upplýsingar má einnig finna á vef Neytendastofu.
Ef flugi er aflýst
Ef þú hefur eingöngu keypt flug og flugfélagið aflýsir fluginu þá áttu rétt á endurgreiðslu frá flugfélaginu.
Ef þú vilt hætta við ferðina og afpantar flugmiða sem þú varst búinn að kaupa þá áttu ekki rétt á endurgreiðslu frá flugfélaginu nema annað komi fram í skilmálum flugfélagsins. Þú átt hins vegar alltaf rétt á endurgreiðslu á sköttum og gjöldum sem þú greiddir sem voru hluti af heildarverði flugsins.
Ef þú hefur keypt gistingu sem samkvæmt skilmálum er óendurgreiðanleg þá áttu ekki rétt á endurgreiðslu frá gististaðnum.
Á vefsíðum einhverra tryggingafélaga hafa verið teknar saman helstu upplýsingar um ferðatryggingar og Covid-19 veiruna. Hverjum og einum er ráðlagt að hafa samband við sitt tryggingarfélag og athuga rétt sinn þar sem skilmálar eru mismunandi.