Stefnt er að því að hefja skimanir fyrir nýju kórónuveirunni hjá Íslenskri erfðagreiningu í dag. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu.
Kári Stefánsson, forstjóri fyrirtækisins, bauðst til þess í síðustu viku að skima fyrir veirunni í samfélaginu.
Í frétt Morgunblaðsins er haft eftir Kára að reiknað sé með að sýni verði tekin svo til af handahófi en ekki úr þeim sem sýndu einkenni sjúkdóms.
Aðgerðir heilbrigðisyfirvalda á Íslandi beinast að því fólki sem verið hefur á áhættusvæðum, m.a. á Ítalíu og í Austurríki, sem og fólki sem þessir ferðalangar hafa verið í samneyti við. Enn sem komið er hafa langflest smit verið greind hjá þessum hópi. Nokkur svokölluð þriðja stigs smit hafa greinst.
Fyrirkomulag Íslenskrar erfðagreiningar verður þannig að fólk getur pantað tíma hjá fyrirtækinu í gegnum vefsíðuna bokun.rannsokn.is. Kári vonast til þess að geta tekið um 1.000 sýni á dag.
Í gær höfðu samtals um 1.023 sýni verið tekin hér á landi. Þar af hafa 119 greinst með veiruna. Í gær lágu tveir sjúklingar á Landspítalanum vegna sjúkdómsins. Yfir þúsund manns eru í sóttkví.