Nýja
kórónuveiran hefur nú greinst í 148 löndum. Tæplega 170 þúsund manns um allan heim hafa
greinst með smit og yfir 6.500 hafa látist. Fleiri smit hafa nú greinst utan
Kína en innan í fyrsta skipti frá því að faraldurinn braust út í byrjun árs.
Enn sem komið er hafa langflest dauðsföllin vegna veirusjúkdómsins COVID-19 átt sér stað í Kína. Yfir 1.800 hafa látist á Ítalíu og tæplega 730 í Íran. Í Bandaríkjunum hafa nú 3.500 greinst og 57 látist. Smitsjúkdómastofnunin þar í landi hefur lagt til að samkomur takmarkist næstu átta vikurnar við fimmtíu manns.
Ásýnd borga og bæja víða um heim er óvenjuleg þessa dagana. Ítalska borgin Feneyjar er allt árið um kring gríðarlega vinsæll áfangastaður ferðamanna svo mörgum var farið að þykja nóg um. Núna eru þar fáir á ferli og gondólarnir mara mannlausir við bryggjur.
Ástandið er svipað í mörgum öðrum ítölskum borgum en þar í landi hefur verið gripið til allsherjar lokunar stofnana, verslana, veitingastaða og annarra samkomustaða.
Nú hefur einnig verið gripið til svipaðra aðgerða í New York-borg. Þar verður skólum, veitingahúsum, börum og öðrum samkomustöðum lokað fyrir gestum til að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar. Þó má sækja mat og senda heim. Borgaryfirvöld í Los Angeles ætla að feta sömu slóð og sambærlegar aðgerðir eru við lýði í Washington-ríki.
Ákveðið hefur verið að loka nokkrum hótelum og spilavítum í Las Vegas.
Heilbrigðisyfirvöld í Bretlandi hafa beðið fólk yfir sjötugt um að halda sig til hlés í heimasóttkví næstu vikurnar og jafnvel mánuðina. Þetta er gert vegna þess að aldraðir eru í einum helsta áhættuhópnum.
Í Lúxemborg, Frakklandi og Belgíu eru barir og veitingahús lokuð.
Stjórnvöld í Þýskalandi ætla að loka landamærum sínum fyrir öllum nema þeim sem nauðsynlega þurfa að ferðast.
Indverski kvikmyndaiðnaðurinn, Bollywood, mun leggjast í dvala næstu vikurnar.
Í Hondúras hefur einnig veirð gripið til mjög róttækra aðgerða. Bæði opinberir starfsmenn og starfsmenn einkafyrirtækja hafa verið sendir heim, fyrir utan þá sem sinna heilbrigðisþjónustu, löggæslu og svo framvegis. Flugum hefur verið aflýst og sömuleiðis almenningssamgöngum. Takmarkanirnar munu gilda í að minnsta kosti viku. Sex smit hafa greinst í landinu til þessa.
Í morgun bættist Gana í hóp þeirra ríkja sem hafa bannað komur fólks frá helstu áhættusvæðum veirusýkingarinnar.
Í Suður-Afríku hefur verið lýst yfir neyðarástandi og þar hefur landamærum einnig verið lokað fyrir fólki frá mestu áhættusvæðunum, m.a. frá Kína, Íran, Ítalíu, Spáni, Bretlandi og Bandaríkjunum.
Í Kenía hafa einnig verið settar á ýmsar takmarkanir á ferðalögum. Fólk frá löndum þar sem veiran hefur greinst er bannað að koma þangað. Þar hafa þrjú tilfelli greinst.
Í Tansaníu hefur ekkert tilfelli greinst en stjórnvöld ætla engu að síður að grípa til harðra aðgerða og hafa aflýst öllu millilandaflugi. Sömu sögu er að segja frá Marokkó.
Fleiri lönd í Afríku hafa gripið til sambærilegra aðgerða en í álfunni hafa mun færri tilfelli greinst en flestum öðrum heimsálfum. Þó hafa smit verið staðfest í 26 löndum Afríku.