Yfir 1.700 manns eru nú í sóttkví á Íslandi vegna nýju kórónuveirunnar. Smit hafa greinst hjá 180 og er það fólk í einangrun. Þrír eru á sjúkrahúsi vegna veirusýkingarinnar COVID-19.
Fólk þarf að fara í sóttkví þegar það hefur mögulega smitast þrátt fyrir að finna engin einkenni. Þeir sem eru í mestri smithættu eru þeir sem hafa verið á ferðalagi á skilgreindum áhættusvæðum og þeir sem hafa umgengist fólk sem svo hefur greinst með COVID-19.
Sóttkví vegna COVID-19 eru 14 dagar frá síðasta mögulega smiti eða þar til einkenni koma fram. Ef þú ferð að upplifa einkenni og sýking er staðfest í kjölfarið þarf að fara eftir leiðbeiningum um einangrun í heimahúsi.
Sóttkví er nauðsynleg aðgerð sem beitt er til að hefta og hægja á útbreiðslu smits. Þeir sem eru í sóttkví skulu takmarka öll náin samskipti við annað fólk.
Smitleið er snerti- eða dropasmit. Það þýðir að veiran getur dreifst þegar veikur einstaklingur hóstar, hnerrar eða þurrkar sér um nefið og hraustur einstaklingur fær framan í sig dropa/úða frá þeim veika eða hendur hans mengast af dropum og hann ber þær svo upp að andliti snu. Einstaklingar í sóttkví þurfa að gæta vel að handhreinsun, sérstaklega þegar samskipti við aðra eru óhjákvæmileg.
Í leiðbeiningum embættis landlæknis fyrir almenning varðandi sóttkví í heimahúsi kemur fram að fólk í sóttkví eigi að halda sig heima við og hafa bein samskipti við sem fæsta. Þá eigi það ekki að fara út af heimili „nema brýna nauðsyn beri til”. Samkvæmt upplýsingum frá landlæknisembættinu er þar átt við þegar fólk þarf mögulega að fara út úr húsi og hugsanlega útsetja aðra fyrir smiti, t.d. ef það þarf skyndilega að leita sér læknisaðstoðar. „Í gönguferð eða bíltúr eru litlar sem engar líkur á að þú smitir aðra,” segir í svari Kjartans Hreins Njálssonar, upplýsingafulltrúa landlæknis við fyrirspurn Kjarnans.
Hér að neðan eru nokkur atriði sem fólk í sóttkví MÁ GERA og önnur sem það MÁ EKKI GERA.
Einstaklingur í sóttkví má ekki nota almenningssamgöngur eða leigubíla. Ef hann þarf að sækja heilbrigðisþjónustu má hann nota einkabíl ef hann er ökufær eða aðrir sem eru með honum í sóttkví, annars þarf að fá aðstoð við sjúkraflutninga í gegnum 1700/112.
Einstaklingur í sóttkví má ekki fara til vinnu eða skóla þar sem aðrir eru. Hann getur þurft að fá vottorð þess efnis frá heilsugæslunni. Biðlað hefur verið til vinnuveitenda um að sýna því skilning ef starfsmaður þarf að vera í sóttkví.
Einstaklingur í sóttkví má ekki fara á mannamót, hvort sem þau varða starf hans, fjölskyldu eða félagslíf. T.d. vinnufundir, samkomur vinnufélaga, samkomur stéttarfélaga, fermingar, jarðarfarir, saumaklúbbar, kóræfingar, tónleikar o.s.frv.
Einstaklingar í sóttkví mega ekki fara á líkamsræktarstöðvar, sundlaugar, í leikhús, kvikmyndahús, verslunarmiðstöðvar eða aðra staði þar sem margir koma saman.
Einstaklingar í sóttkví mega ekki fara sjálfir eftir aðföngum, þ. á m. í apótek, matvöruverslun, pósthús, banka eða annað.
Einstaklingur í sóttkví má ekki dvelja í sameiginlegum rýmum fjölbýlishúsa, s.s. stigagöngum, þvottahúsum eða sameiginlegum görðum/útivistarsvæðum.
Einstaklingur í sóttkví má ekki taka á móti gestum á heimili sínu meðan sóttkví stendur yfir.
Þrátt fyrir þessar takmarkanir er ýmislegt sem er leyfilegt í sóttkví.
Einstaklingur í sóttkví má fara út á svalir eða í garð við heimilið. Ef aðrir eru þar líka þarf sá sem er í sóttkví að halda sig í a.m.k. 1-2 metra fjarlægð.
Einstaklingur í sóttkví má fara í gönguferðir en þarf að halda sig í a.m.k. 1-2 metra fjarlægð frá öðrum vegfarendum.
Einstaklingur í sóttkví má fara í bíltúr á einkabíl en ekki má eiga samskipti við aðra í návígi s.s. við bílalúgur veitingastaða.
Einstaklingur í sóttkví má fara út með heimilissorp en huga þarf vel að hreinlæti, sinna handhreinsun fyrir og eftir opnun sorprennu/ruslatunnu/ruslageymslu og gjarnan strjúka yfir handföng með 70% spritti eða öðru sótthreinsandi efni eftir snertingu.
Hér er ítarlegri samantekt landlæknis á því hvernig á að haga sér í sóttkví.