„Vonandi gengur veikin yfir á þremur mánuðum. Efnahagslegu áhrifin munu vara eitthvað lengur. Þetta er hins vegar tímabundið. Það er það sem er jákvætt. Allir faraldar, þeir ganga yfir.“
Þetta sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í sameiginlegum morgunþætti allra miðla RÚV í morgun.
Ásgeir sagði að staðan nú væri „eldskírn“ fyrir ferðaþjónustuna. Hún muni ekki skila neinum teljandi tekjum á öðrum ársfjórðungi. Hún hafi gengið í gegnum samdrátt á síðasta ári þegar ferðamönnum fækkaði um 20 prósent og núverandi ástand komi svo ofan í það. „Hún verður vonandi endurskipulögð og síðan náttúrulega verður Ísland áfram ferðaþjónustuland. Og hún komi til baka. Þetta er spurning um tíma, hvort það verði sex mánuðir eða tólf mánuðir, hún er að koma til baka.“
Ásgeir var spurður hversu slæmt ástandið væri orðið og hverjar spár Seðlabanka Íslands um áhrif þess væru. Hann sagði það áður hafa gerst fyrir Ísland að landið hefði tapað stórum hluta útflutningstekna sinna, til dæmis þegar síldin fór. Nú njótum við þess hins vegar að hafa gripið til margháttaðra ráðstafana eftir hrunið 2008 sem hjálpi til við að bregðast vel við nú. Þar skipti til dæmis máli að háir eiginfjáraukar hafi verið settir á bankana í landinu sem geri það að verkum að þeir eigi 25 prósent eigið fé. Nú sé hægt að losa um það eigið fé til að hjálpa fyrirtækjunum í landinu með fyrirgreiðslu.
Það hjálpi líka til við að mæta samdrætti í útflutningi að neysla Íslendinga hefur dregist skarpt saman. Fólk eyði minna, fari ekki til útlanda, kaupi ekki mikið af innfluttum fatnaði og svo framvegis. Það hjálpi til við að halda við greiðslujöfnuði.
Ásgeir sagðist upplifa að allir væru að róa í sömu átt. Lífeyrissjóðir hefðu samþykkt að halda að sér höndum og fara ekki úr landi með fé tímabundið og bankarnir væru allir að vilja gerðir.
Á kynningarfundi í Seðlabankanum í gær, sem var haldinn vegna þess að ákveðið var í annað sínn á viku að lækka vexti niður í sögulegar lægðir og afnema sveiflujöfnunarauka bankanna,
sagði Ásgeir að ekki ætti að búast við því að það yrði tíðindalaust úr Seðlabankanum á næstunni, bankinn væri bara „rétt að byrja“ að takast á við stöðuna í efnahagslífinu.
Þegar hann var beðinn um að skýra hvað fælist í þessu benti hann á að nýi Seðlabankinn, sem varð til við sameiningu við Fjármálaeftirlitið um síðustu áramót, hefði fleiri tæki til að bregðast við en áður, þegar stjórntæki hans var að uppistöðu stýrivextir.
Ásgeir sagði að Seðlabankinn gæti til að mynda beitt efnahagsreikningi sínum. Hann væri nú, eftir mikla veikingu krónunnar undanfarið, með 930 milljarða króna í gjaldeyrisvaraforða. Með honum væri til dæmis hægt að hafa áhrif á lausafjárstöðu bankanna.
Aðspurður hvort hann hefði boðvald yfir bönkum og lífeyrissjóðum svaraði Ásgeir: „Já og nei, ég er náttúrulega æðsti yfirmaður fjármálaeftirlits í landinu.“ Hann benti þó á að yfirleitt gangi bankar ekki gegn Seðlabankanum og fram til þessa hafi allt farið fram í mestu vinsemd og samstarfi.
Þegar Ásgeir var spurður um hvernig staða heimilanna yrði varin benti hann á að í fyrstu aðgerðum væri væri bæði Seðlabankinn og ríkisstjórnin að hugsa um að koma í veg fyrir að fólk missi vinnuna, með því meðal annars að lækka vexti og tryggja lausafjárfyrirgreiðslu. Það séu ekki einungis aðgerðir fyrir fyrirtæki, heldur fólkið í landinu.
Að lokum sagði Ásgeir að þrátt fyrir að krónan hefði veikst um tíu prósent á skömmum tíma þá hefði hann ekki trú á því að verðbólga væri í kortunum. Aðrir kraftar toga þar á móti til að halda henni í skefjum.