Staðfest smit af nýju kórónuveirunni eru nú orðin 473 hér á landi. Þau voru 409 í gær. 5.448 manns eru í sóttkví víða um land. Til samanburðar eru íbúar Seltjarnarness um 4.600 og Skagamenn rúmlega 7.200.
Greindum smitum hefur því fjölgað um 64 á einum sólarhring. Svipað gerðist í gær á milli daga. Þá eru tæplega 1300 fleiri í sóttkví í dag en í gær.
Sex eru á sjúkrahúsi vegna COVID-19 en 22 sjúklingar hafa náð bata.
Þetta kemur fram á vefnum Covid.is. Samkvæmt gögnum sem þar birtast hefur einn maður á tíræðisaldri sýkst af veirunni hér á landi og fimm börn yngri en tíu ára. Flest smitin hafa greinst í aldurshópnum 40-49 ára.
Uppruni 157 smita er óþekktur. 161 smit er rakið til útlanda og 155 eru svokölluð innanlandssmit.
Fjölgun fólks í sóttkví má m.a. rekja til þess að nú þurfa allir sem búsettir eru á Íslandi að fara í sóttkví eftir heimkomu frá útlöndum. Samtals hafa 753 nú lokið sóttkví.
Tæplega 9.800 sýni hafa verið tekin. Sýnatökur voru mun færri í gær en dagana á undan. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir greindi frá því á upplýsingafundi í gær að það stefndi í tímabundinn skort á sýnatökupinnum og því væri nú forgangsraðað í sýnatökur. Þeir sem sýna einkenni eða hafa umgengist þá sem hafa sýkst eru enn allir teknir í sýnatöku.
Vonast hann til að nýir pinnar komi til landsins á næstunni svo hægt verði að halda áfram að skima rækilega fyrir veirunni.
Þórólfur sagði einnig á fundinum í gær að aukning milli daga í fjölda greindra smita sýndi að faraldurinn væri í vexti eins og búast mátti við. „Við munum halda áfram þeim aðgerðum sem við höfum beitt; greina snemma, einangra og beita í sóttkví. Þetta eru mikilvægustu aðgerðirnar sem við getum beitt til að hefta útbreiðsluna.“
Ítrekaði hann mikilvægi sóttkvíar og að þeir sem væru í sóttkví færu að fyrirmælum.