Kamilla Einarsdóttir er orðheppin kona. Hún sló í gegn með bókinni sinni Kópavogskrónikkunni árið 2018 og til stendur að frumsýna leikverk sem byggt er á bókinni í Þjóðleikhúsinu á þessu ári.
Hún er í hópi valinkunnra Íslendinga sem Kjarninn leitaði til og bað um að veita lesendum fimm góð ráð um hvernig hægt er að rækta líkama og sál á tímum kórónuveirunnar.
Þó að Kamilla bendi á að hún hafi ekki „hundsvit“ á COVID-19 tók hún bón Kjarnans vel.
„Ég er ekki með bílpróf svo það ætti enginn að leita til mín með vandræði sín við að skipta um dekk á 16 hjóla trukknum sínum,“ segir Kamilla. „Ef einhver bæði mig samt um einhver ráð við því væri ég vís með að verða svo upp með mér að ég færi bara aða bulla eitthvað eins og að segja viðkomandi drífa sig í að setja upp viðvörunarþríhyrning í hæfilegri fjarlægð frá ökutækinu. Segja honum svo að ná í tjakk og að endingu myndi ég pottþétt hvetja hann til að vera ekkert að fikta neitt í knastásnum í bílnum.“
Og hún heldur áfram:
„Ekki vegna þess að fólk sé yfirleitt mjög líklegt til að fara að eiga við hann þegar það springur hjá því. Knastás er bara eina bílaorðið sem ég kann svo ég myndi reyna að koma því að til að ganga í augun á þeim sem hefðu gerst svo vitlaus að spyrja mig.“
„Það er nú ekki til neitt opinbert próf í lífsleikni sem ég veit um, en ég er nokkuð viss um að ég myndi skítfalla í því ef svo væri.
Svo mitt helsta ráð til þeirra sem myndu leita til mín út af COVID-19 væri að taka alls ekki mark á mér. Við vitleysingarnir erum yfir það heila allt of til í að gefa alls konar ráð um hluti sem við höfum ekki hundsvit á.
Að því sögðu er ég samt meira en til í að segja ykkur frá því sem ég er að gera þessa dagana til að komast í gegnum þetta. En aðeins tíminn mun leiða í ljós hversu mikið gagn af þessu verður svo í guðanna bænum takið þessu öllu með fyrirvara.“
Hér að neðan fara fimm ráð Kamillu.
Lesa Mannfækkun af hallærum eftir Hannes Finnsson
Þetta er sú sjálfshjálparbók sem hefur komið mér í gegnum flestar krísur lífs míns. Allt frá tímabundnum blankheitum upp í sár sambandsslit.
Þó að titillinn á þessari bók sé frekar myrkur þá skrifaði Hannes Finnsson þessa bók eftir móðuharðindin á 18. öld með það í huga að hún gæti verið okkur sem búum á Íslandi sem upplífgandi hvatningarrit.
Upptalningarnar í þessari bók á alls konar harðindum í kjölfar eldgosa, hafísa og hungursneyða, fá kannski engan til að fara að valhoppa skríkjandi út um allan bæ. En það ætti hvort sem er helst enginn að gera það. Það er bara ekkert töff. Þar að auki er nokkuð ljóst að ef þessi umfjöllunarefni myndu fá einhvern til að fyllast einhverri kæti, þá væru miklar líkur á að sú manneskja ætti við alvarlegan skort á samkennd að stríða, sem væri nú ekki á okkur bætandi, á þessum síðustu og verstu.
En mér finnst þessi bók er alltaf svo góð áminning um mikilvægi þrautseigjunnar. Við höfum komist í gegnum allan andskotann og við getum það flest líka núna.
Lesa aðrar bækur
Ég vinn á bókasafni og er rithöfundur. Mitt ráð við öllu er að lesa eitthvað. Mér finnst skáldskapur sérstaklega hjálplegur. Í gegnum skáldskap fáum við að hverfa frá öllum áhyggjum af hugsanlegum klósettpappírskorti, viðbjóðslegu stroganoffáti og því hvort að draumar okkar um að fá einhvern tímann að leiða manneskju sem við erum ástfangin af um stræti Rómar og já, hugsanlega enn verri og raunverulegri áhyggjuefnum sem ég þori ekki einu sinni að nefna strax því það er bara eins og Kaninn segir: Too soon.
Ég myndi hvetja alla til að stökkva núna út í Mál og menningu og kaupa sér bók eða panta nokkrar þannig á netinu. Hellingur af bókum er líka til sem raf- og/eða hljóðbækur. Ég lofa ykkur að bækur eftir Þórdísi Gísla, Auði Jóns, Guðrúnu Evu Mínervu, Júlíu Margréti Einars (sem er systir mín og þess vegna finnst mér hún extra best), Kristínu Svövu Tómasdóttur, Jónas Reyni Gunnars, Brynjólf Þorsteins, Ástu Fanneyju, Dag Hjartar, Brynju Hjálms og ég gæti haldið svona áfram endalaust, munu aldrei valda ykkur vonbrigðum.
Það er til fáránlega mikið af bókum sem gera líf okkar betra, nóg í gegnum margar vikur af sóttkvíum.
Búa eitthvað til
Internetið segir að Shakespeare hafi skrifað leikritið Lér konungur í sóttkví. Ég veit ekki hvort það er satt en það var alla vega nóg af plágum í gangi á hans tíma svo kannski skrifaði hann öll sín verk meira og minna í sóttkví.
Ég er núna að lesa þýðingu Þórarins Eldjárns á Hamlet sem var að koma út. Þórarinn er eitt besta skáld og íslenskuséní sem þessi þjóð hefur nokkurn tímann átt og ótrúlega dýrmætt fyrir okkur að hann nenni að standa í því að þýða svona mörg verk Shakespeares eins og hann hefur gert.
Í öðru atriði 11. þáttar spyr Hamlet vini sína hvernig þeir hafi það. Rósinkrans svarar: „Rétt eins og fólk almennt” og Gullinstjarni bætir við: „Við erum alsælir með að vera ekki alltaf alsælir. Við erum ekki beinlínis dúskurinn í húfu hamingjunnar.“
Mér finnst þetta svo ógeðslega fyndið og vel orðað. En svona líður sennilega mörgum okkar þessa dagana. Alla vega tengi ég alveg fullkomlega.
Það er nú kannski ekki hægt að ætlast til að við förum öll að skrifa Lé konung á meðan COVID-19 gengur yfir. Enda svosum óþarfi að endurtaka það. Mér sjálfri finnst frekar erfitt að skrifa þessa dagana. Það er bara svo mikið í gangi út um allt að ég næ ekki alveg einbeitingu. Ég er of mikið að hugsa um spritt, hvað séu um það bil tveir metrar í alvöru og hvernig ég geti opnað allar dyr með hringsparki svo ég þurfi ekki að snerta hurðarhúna. Ég vona að það fari nú samt að lagast. Ég hef samt reynt að búa eitthvað til á hverjum degi. Í gær reyndi ég að kenna mér með hjálp jútjúb að binda pelastikk hnút (á ensku: bow line knot, ef þið viljið prófa líka).
Það eru hverfandi líkur á að það muni nokkurn tímann hjálpa mér að kunna að hnýta svona hnút, en það kostar mig alltaf slatta af einbeitingu að læra eitthvað svona rugl og þá get ég ekki velt mér upp úr öðrum áhyggjum rétt á meðan.
Næstu atriði á dagskrá hjá mér að læra eru að: Teikna risaeðlu, spila á lútu, fara í splitt og læra svo alla vega einn léttan spilagaldur til að slá um mig með í partíum, hvenær sem ég má nú fara aftur í einhver slík.
Það eru kannski ekki miklar líkur á að ég nái að læra að gera þetta allt á fágaðan og glæsilegan hátt. En að reyna að læra það mun slátra nokkrum hálftímum í lífi mínu og það er alveg nóg.
Ef þetta tekst allt, þá kannski reyni ég svo að gera eins og Shakespeare og skelli í nokkrar sonnetur, bara svona til gamans. Ég lofa að enginn þeirra verður um þessa fjandans veiru.
Góður matur
Fullt af veitingastöðum eru farnir að bjóða upp á heimsendingu og take-away möguleika. Mér finnst að við ættum að vera dugleg að nýta okkur það. Bæði vegna þess að góður matur mun gera allt þetta hangs okkar heima við svo miklu notalegra og líka bara til að styðja við bakið á veitingageiranum sem þarf á því að halda núna. Við viljum hafa nóg af stöðum eftir til að sækja þegar þessu lýkur öllu saman.
Ég borða ekki dýraafurðir svo ég mæli til dæmis með því að koma við á Prikinu, allt þar er vegan og rosalega gott. Á Prikinu er líka hægt að kaupa stuttermaboli og peysur hljómsveitarinnar Une Misère. En það er líka hart í ári hjá sviðslistarfólki núna, eins og allir vita, og um að gera að reyna að hjálpa þeim með þeim leiðum sem eru í boði þegar við komumst ekki á tónleika. Ættum að reyna að styrkja fullt af listafólki sem við fílum á patreon.com eða kaupa teikningar, boli, límmiða og bara alls konar.
Une Misère-bolirnir eru sko alveg svakalega mjúkir sem er mikilvægt á svona tímum eins og þeim sem við erum að ganga í gegnum. Það á ekkert að vera stíft og skerast í inn bakspikið á okkur. Þetta eru líka töff bolir, en eins og allir vita er ekki til meiri textíls alslemma en að ein flík nái því að vera: Þægileg, töff og til styrktar góðu málefni.
Ég myndi svo koma við á Tíu Sopum á heimleiðinni. Þar elska ég að fá mér eitt ógeðslega gott kombucha. Þar er líka alls konar áfengt sull fyrir þá sem það fíla og nóg af handspritti í boði hússins eins og barir bæjarins hafa verið svo duglegir að skaffa, svo um að gera að hitta áfram vini sína á þannig stöðum án þess að káfa á þeim, blikkum þá bara og sendum fingurkossa án þess að kyssa fingurna í alvöru samt!
Krúttleg dýr
Það er kannski óþarfi að nefna eitthvað sem er jafn augljóst, en krúttleg dýr gera allt betra. Mín uppáhaldsdýr á jútjúb eru: Þvottabirnir, otrar og flóðhestar. Á Instagram fylgist ég svo grannt með dýrauppeldi vina minna á sínum hundum, köttum og músum.
Ég styð það alveg ef þið eruð mest að skoða eitthvað svalt eins og kennsluvídjó í morse-kóðanum, hvernig eigi að búa til mólotov-kokteila eða smíða þyrluspaða úr gömlum Macintosh-dollum. En við þurfum líka að rækta í okkur krúttið, annars er ekkert af þessu til neins.