Sóttvarnalæknir segir að 92 ný smit af kórónuveirunni hér á landi síðasta sólarhringinn þurfi ekki að koma á óvart. Faraldurinn sé í uppsveiflu. Þetta þurfi ekki að þýða að smit verði fleiri en haldið hafi verið fram hingað til. Sveiflur séu eðlilegar í því fámenni sem hér er en skýringin á fjöldanum gæti líka verið sú að samfélagssmit sé að verða meira.
Enn á eftir að setja tölur um smit inn í spálíkan og meta hvenær faraldurinn muni ná hámarki. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að enn væri gert ráð fyrir því að faraldurinn nái hámarki um miðjan apríl. Næstu dagar muni skera úr um það hvort að bestu eða verstu spár um útbreiðsluna rætist. Hins vegar væri allur undirbúningur, m.a. í heilbrigðiskerfinu, miðaður við það að versta spá raungerist.
Tólf sjúklingar með COVID-19 liggja nú á Landspítalanum. Einn er á gjörgæslu en hann er ekki í öndunarvél. Þá er fyrirhugað að útskrifa 4-5 í dag.
Þórólfur sagði að nú væri tímabært að reyna að leggja mat á þær aðgerðir sem gripið hefur verið til fram að þessu hér á landi sem eru að greina snemma, einangra sýkta, rekja smit og setja í sóttkví.
Helmingur smita meðal þeirra sem eru í sóttkví
Jákvæða vísbendingu sé meðal annars að finna í þeirri staðreynd að um helmingur allra sem eru að greinast með veiruna þessa dagana eru einstaklingar sem eru í sóttkví. Það sýni að sóttkvíarúrræðið sé að skila árangri og að með henni hafi verið komið í veg fyrir töluvert af smitum. „Það er jákvætt,“ sagði Þórólfur. Hann benti einnig á að þegar Íslensk erfðagreining var að taka hundruð sýna á dag voru jákvæð sýni aðeins í kringum 1 prósent. Hann sagði að nú væru ákveðnar vísbendingar um að hlutfallið kunni að vera að aukast sem bendi til aukningar á samfélagslegu smiti. Það ætti hins vegar ekki að koma á óvart.
Vísindamenn hjá miðstöð lýðheilsuvísinda hjá Háskóla Íslands hafa borið saman daglega meðaltalsaukningu á nýgreindum tilfellum á hverja þúsund íbúa hér á landi við hinar Norðurlandaþjóðirnar. „Það kemur í ljós að Ísland er lægst á þessum skala,“ sagði Þórólfur. „sem segir að nýgreindum fjölgar einna minnst hér á Íslandi og það er ágætis vitnisburður um það að þær aðgerðir sem við höfum verið að grípa til hafa skilað árangri.“
Þórólfur sagði að stærðfræðingurinn Pawel Bartoszek hefði komist að svipaðri niðurstöðu hvað varðar aðrar Evrópuþjóðir. „Þessar niðurstöður um að aukning á sýkingum á Íslandi er einna lægst af Evrópuþjóðum enn sem komið er er mjög ánægjulegt og á að hvetja okkur enn frekar til dáða og halda áfram með þær aðgerðir sem við höfum verið að beita fram að þessu.“
Sóttvarnalæknir minnti á að samfélagslegar aðgerðir á borð við þær að hvetja fólk til sóttvarna, þvo sér vel um hendur, nota spritt og virða fjarlægðarmörk, séu mikilvægar svo árangur náist.
Heimsskortur á sýnatökupinnum
Að sögn Þórólfs virðist „heimsskortur“ nú vera á sýnatökupinnum og því kunni að koma að því að setja þurfi strangari skilyrði fyrir sýnatökum. Hann sagði allra leiða leitað til að fá hingað til lands fleiri pinna og von er á sendingu í þessari viku.
Tugir ábendinga um brot á sóttkví
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sagði á fundinum að lögreglunni bærust tugir ábendinga á hverjum degi um að fólk væri að brjóta reglur um sóttkví. Spurður hvort til greina komi að herða eftirlit með sóttkví sagði hann það ekki standa til.
„Við höfum hingað til treyst fólki og að samfélagið standi saman í þessu,“ sagði hann. Lögreglan hafi heimildir til að loka starfsemi, þar sem reglum sé ekki framfylgt, án fyrirvara. „En við skulum halda áfram að treysta hvert öðru og gera þetta almennilega.“
Skorar á landsmenn að hafa veirufrían klukkutíma
Í kvöld er von á hertum aðgerðum um samkomubann en það er heilbrigðisráðherra sem tekur ákvarðanir um slíkt á grundvelli leiðbeininga sóttvarnalæknis. „Við erum að fara að herða þessar reglur,“ sagði Víðir, „og við viljum brýna fyrir [ykkur] að ef þið eruð kvefuð – verið heima. Ef þú ert með beinverki eða slíkt – vertu heima. Og ef þú heldur að þú sért að verða veikur – vertu þá heima.“
Hann endaði fundinn á því að hvetja landsmenn til þess að taka „veirufrían“ klukkutíma milli klukkan 20-21 í kvöld þar sem talað yrði um eitthvað allt annað en kórónuveiruna.