Staðfest smit af nýju kórónuveirunni eru nú orðin 568 hér á landi. Í gær voru þau 473. Í dag eru 6.340 í sóttkví en í gær var fjöldinn 5.448. Tæplega 1.100 manns hafa lokið sóttkví. Smit af óþekktum uppruna eru nú orðin fleiri en innanlandssmit svokölluð og smit sem rekja má beint til dvalar erlendis.
Í gær lágu tólf á sjúkrahúsi vegna COVID-19 sjúkdómsins. Þá höfðu 9.768 sýni verið tekin. Á miðnætti í gær höfðu 10.118 sýni verið tekin.
Færri sýni hafa verið tekin síðustu tvo sólarhringa en dagana á undan vegna vöntunar á sýnatökupinnum sem nauðsynlegir eru til rannsóknanna. Alma Möller landlæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í gær að von væri á sendingu innan skamms og stærri sendingu í kjölfarið.
Á fundinum í gær voru einnig boðaðar hertari aðgerðir til að hefta útbreiðslu veirunnar. Til stendur að viðmið um fjölda þeirra sem mega koma saman verði lækkuð, mögulega í 20-40. Þá stendur einnig til að takmarka starfsemi þar sem nánd er mikil, m.a. hárgreiðslustofa og nuddstofa, svo dæmi séu tekin. Hertari fjöldatakmarkanir munu hafa áhrif á verslanir og veitingahús þar sem ekki er hægt að halda tveggja metra fjarlægð milli fólks.
Tryggt að hægt verði að nálgast matvöru
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, sagði í gærkvöldi að tryggt yrði að apótek og matvöruverslanir muni geta starfað áfram með þeim hætti að almenningur hafi greiðan aðgang að öllum nauðsynjum og öðrum vörum.
Eins og áður hefur komið í umræðunni er birgðastaða hér á landi góð og engin merki um að breyting verði á því.